142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og margar góður lotur um þetta mál.

Það er auðvitað rétt að við erum ekki á byrjunarreit í þessu máli. Þetta mál á sér mjög langan aðdraganda. Enn og aftur er þetta áminning til okkar sem hér erum um það hvað við vorum í raun og veru vanbúin að taka á því mikla efnahagshruni sem hér reið yfir að því er varðaði mælikvarðana. Það er lykilatriði í allri stjórnun, alveg sama hvort það er stjórnun á efnahags- og atvinnulífi eða náttúrunni eða hvað það er, að vera með mælikvarða, vera með einhverja viðmiðun, vita hvað er normið og vita hvernig maður víkur síðan frá því. Það hefur því verið viðfangsefnið allan tímann í fordæmalausri stöðu.

Við erum alveg örugglega komin nær markmiðinu núna en við höfum oft verið á fyrri stigum. Það held ég að við hv. þingmaður getum verið sammála um. Ég er líka sammála um það að þegar við nálgumst þetta viðfangsefni, þ.e. að stilla af einhvers konar sameiginlegan skilning á mælikvörðum, þá þarf að lögfesta einhverjar heimildir. Ég er sammála hv. þingmanni um það en ég er ekki sammála því að markmiðinu verði einungis náð með því að safna saman öllum gögnum um alla. Það er eiginlega þar sem okkur greinir á.

Þegar um svo ríka hagsmuni er að ræða gagnvart friðhelgi einkalífsins finnst mér ótækt annað en að við mátum okkur skref fyrir skref gagnvart persónuverndar- og mannréttindasjónarmiðum. Það er því það sem ég er að kalla eftir. Auðvitað er það alltaf hagsmunamat okkar þegar allt kemur til alls, en hins vegar þurfum við að hafa töluverða fullvissu þegar teknar eru ákvarðanir af þessu tagi og mér finnst sú fullvissa ekki vera í hendi.