142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og fleiri að þakka málefnalegar umræður um þetta mál.

Hv. þm. Pétri H. Blöndal hefur verið tíðrætt um að ríkir almannahagsmunir séu hér í húfi sem réttlæti það að stjórnarskrárákvæðið sé brotið.

Hann er líka sannfærður um að minni hluti þingsins hafi ekki viljað funda um helgina eins og hann hefði gjarnan viljað að nefndin gerði. Ég spyr hvort það þurfi ekki tvo til, þ.e. meiri hluta og minni hluta, til að vilja funda.

Síðan velti ég fyrir mér af því að hér hafa verið reifuð hin ýmsu mál, að verði frumvarpið að lögum þá viti maður ekki nákvæmlega hvaða upplýsingar verði færðar til Hagstofunnar í þessu tilfelli.

Eins og kom fram hjá þingmanninum hefur hann oft vísað í að það séu svo víðtækar upplýsingar til hjá skattinum. Hvað heldur þingmaðurinn nákvæmlega að þurfi til viðbótar til að aðstoða skuldug heimili sem verður að afgreiða núna? Það hefur komið fram í umræðunni að þetta frumvarp sé ekki forsenda þess að fara í þau mál sem ríkisstjórnin ætlaði sér að gera. Hvað er það til viðbótar sem þingmaðurinn telur að þurfi að bætast við í upplýsingasarpinn svo hægt sé að gera þetta?