142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessar spurningar. Það vill svo til að ég spurði að því einmitt í 2. umr., held ég, hvað vantaði til viðbótar við það sem skatturinn hefur. Það er aðallega tímafaktorinn, þ.e. skatturinn fær sínar upplýsingar einu sinni á ári og nokkuð löngu síðar. Þá er kannski orðið of seint að grípa til ráðstafana. Auk þess hafa menn upplýsingar um lánssamninga og annað slíkt sem skatturinn hefur ekki.

Varðandi það að stjórnarskrárákvæðið sé brotið, ég er ekki sammála því að friðhelgi einkalífsins sé tryggð með því að ekki megi veita þessar upplýsingar áfram og hún sé tryggð með því að þessi gögn séu varin. Ef þau lægju á strætum og torgum út um allt væri friðhelgin náttúrlega ekki varin, en ef enginn kemst í þessi gögn nema fólk sem er bundið þagnareiði þá er friðhelgi varin og stjórnarskráin ekki brotin.

Varðandi fundinn sem var haldinn og ég var að spyrjast fyrir um þá er ég búinn að fá mína mynd af þeim fundi. Þannig var að stjórnarandstaðan sagði: Við skulum semja um að ræða málið í október. Það var tilboðið. Hún var ekki tilbúin að klára málið núna um helgina, ætlaði að klára það í október. Ég spyr og er búinn að spyrja aftur og aftur: Af hverju í ósköpunum gátu þau ekki klárað um helgina það sem þau ætluðu að klára í október? Þetta er bara nákvæmlega það sama. Þau hefðu örugglega fengið einhverja daga í viðbót ef mikið lægi við og samkomulag væri í nánd. Nei, menn kröfðust þess bara að fresta málinu fram í október, gera það ekki núna, en kvarta jafnframt stöðugt undan því að upplýsingarnar liggi ekki fyrir nógu snemma. Ef frumvarpið er samþykkt seinna þá liggja upplýsingarnar líka fyrir seinna.