142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[14:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vekja athygli á þessu málefni og hefja umræðu um það. Ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánssdóttur fyrir þessi svör.

Mér finnst augljóst mál að það þurfi að auka neytendavernd, mér finnst málið snúast um það að við þurfum að við auka rétt neytenda, þar með lántakenda. Við erum neytendur sem tökum lán á lánamarkaði. Við þurfum að tryggja stöðu einstaklinga gagnvart fjármálastofnunum. Ef við náum því fram í framtíðinni náum við að stíga stórt skref í átt til réttlætis.

Ég sit í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála og við teljum það eitt af verkefnum okkar að skoða hvernig við getum tryggt hag neytenda betur. Ég fagna því sem Hanna Birna kemur inn á hér, þ.e. að unnið hafi verið í allt sumar og …(Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Ég ætla að biðja hv. þingmann um að gæta að ávarpsorðum.)

Ég fagna því að hæstv. ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi verið að vinna að því í velferðarráðuneytinu, ásamt því starfsfólki sem þar vinnur, að skoða hvaða hugmyndir eru færar í því að gera fólki sem er með yfirveðsettar eignir kleift að losna undan þeim án þess að fara í gjaldþrot. Ef sú framkvæmd næst er það stórt skref í rétta átt. Ég ætla því að leyfa mér að vera bjartsýn yfir framhaldinu.