142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

lög um fjárreiður ríkisins.

[15:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Spurning mín er til hæstv. fjármálaráðherra um lög um fjárreiður ríkisins og nokkuð oft boðaða endurskoðun þeirra laga. Ég skal viðurkenna að það tengist auðvitað áhuga mínum á nýbyggingu Landspítala og fjárfestingum lífeyrissjóða sem talið er vera um 150 milljarðar kr. á ári. Þeir hafa frekar fá tækifæri núna sérstaklega þegar gjaldeyrishöft eru og annað. Auðvitað vitum við öll að mjög brýnt er að bæta húsakost Landspítalans og ég tel að það eigi að gera með nýbyggingu. En samkvæmt núgildandi fjárreiðulögum bæri Landspítala og öðrum ríkisstofnunum í A-hluta ríkisreiknings að gjaldfæra byggingarkostnað á framkvæmdatíma, þ.e. ekki má færa byggingar til eignar og afskrifta á notkunartíma. Þetta þýðir að hugsanlega nýbyggingu Landspítalans upp á 50 milljarða þyrfti að fjármagna á byggingartíma með framlögum úr ríkissjóði og eins og sagt hefur verið held ég að þeir peningar séu ekki til á næstu árum.

En með margboðaðri endurskoðun fjárreiðulaga hefur verið rætt um að þeim yrði breytt þannig að ríkisstofnanir í A-hluta færi fullt rekstrar- og eignabókhald. Ef fasteignir Landspítalans, nýbyggingar, yrðu til dæmis settar í sérstakt fasteignafélag, við skulum segja bara Landspítalinn ohf., þá gæti Landspítalinn fengið bygginguna til afnota gegn leigugjaldi en byggingin yrði færð til eignar hjá fasteignafélaginu.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta einu færu leiðina til að byggja nýjan Landspítala og bæta húsakost hans, að gera það á þennan hátt. Þess vegna er það spurning mín til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Verður nýtt frumvarp um fjárreiður ríkisins lagt fram á næsta þingi og þá hvenær?