142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

36. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrstu spurninguna er alveg ljóst í samkomulaginu, sem er fylgigagn með þessu máli, þ.e. hin sameiginlega viljayfirlýsing, að þetta tekur eingöngu til þeirra lána, þess hluta lánanna sem var varið beint til húsnæðiskaupa. Þar er viðmiðunin gamalkunnug, það eru lán sem stofna rétt til greiðslu vaxtabóta, ekki önnur. Það kemur reyndar fram í greinargerðinni að þar er sundurgreindur sá fjöldi lántakenda sem notaði lánsveðslánin til húsnæðiskaupa frá hinum og það er rúmur helmingur þeirra 6.700 sem það átti við um.

Varðandi lán sem tekin voru fyrir 2004 og þá með lánuðum veðum er þetta út af fyrir sig allt rétt sem hv. þingmaður segir, að sá hópur naut auðvitað nokkurra ára þar sem fasteignirnar hækkuðu meira en lánin og meira en verðlag. Í þeim skilningi geta menn sagt að hann eigi inni gagnvart því. En þá eru náttúrlega minni líkur á því að um þessa yfirveðsetningu sé að ræða, þannig að það mun nú væntanlega ekki eiga við í miklum mæli. Að sjálfsögðu er sá hópur verst settur og mest yfirveðsettur sem tók lánin á allra óhagstæðasta tíma á toppi fasteignabólunnar árið 2007, það leiðir af hlutarins eðli. Einnig hitt að samkomulagið slær þann varnagla við að lánin verða aldrei færð niður fyrir upphaflegt veðsetningarhlutfall eignar lántakandans. Þar verður dregið strik þannig að það getur þýtt að niðurfærslan verður minni en niður að 110%. Það er upphaflega veðsetningarhlutfallið niður að þeim mörkum eða niður í 110% sem lánið verður fært í. Ég geri ráð fyrir að þetta tvennt leiði til þess að þetta muni mjög sjaldan eiga við um þann hluta hópsins sem tók lán fyrir 2004.

Varðandi svo það hvort við eigum að fara að reyna eitthvað að flokka félagslegar aðstæður hópsins og fara í samjöfnuð við fólk sem var öðruvísi statt í þessum efnum, ég held að (Forseti hringir.) það verði torsótt leið. Við verðum fyrst og fremst að gera það (Forseti hringir.) upp við okkur: Viljum við aðstoða þennan hóp eða ekki?