143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Kæra þjóð. Það sem einkennir stjórnmálin nú sem áður er skortur á framtíðarstefnu. Í ræðu forsætisráðherra dregur hann upp mynd fyrirmyndarlandsins sem ramma utan um það hvernig Ísland gæti orðið undir forustu núverandi ríkisstjórnar.

Kannski er það framtíðarstefna Íslands að verða best í heimi. Það er kannski ekki alslæm framtíðarstefna ef hún ætti raunverulegar rætur í veruleikanum. Engin raunveruleg verkfæri til að ná þeirri stefnu fram að verða best eru kynnt í ræðu hæstvirts ráðherrans. Ég hélt fyrst að ég væri að lesa ævintýri fyrir börn þegar ég las ræðuna. Það verður að viðurkennast að ég hef mjög gaman af skáldskap og ævintýrum en kannski hefði verið raunsærra að byggja þetta framtíðarævintýri með Krúnuleikanna sem sviðsmynd þar sem valdabarátta og algleymi er í aðalhlutverki, en það er það sem hefur einkennt og skemmt samfélag okkar um langa hríð. Oft er talað um smákóngaríkið Ísland og það virðist einmitt vera það sem stendur okkur hve mest fyrir þrifum þegar kemur að því að laga hér það sem veldur ójöfnuði og misrétti, arðráni og spillingu.

Kæra þjóð. Ég ætla að segja ykkur ofurlítið ævintýri um fyrirmyndarlandið eins og ég sé það fyrir mér. Það er byggt á sameiginlegri framtíðarsýn allra landsmanna á því hvernig samfélag við viljum vera. Sú samfélagssýn hefur nú þegar skotið viðkvæmum rótum í jarðvegi kreppuáranna. Ræturnar liggja inn í þjóðfundinn um nýja stjórnarskrá, þar hittist fólk sem var valið af handahófi til að ræða um hvað því fannst eiga að vera undirstöður samfélags okkar. Sú sýn var yfirfærð í nýja stjórnarskrá stjórnlagaráðs sem var opin öllum sem vildu ljá rödd sína og rök. Ræturnar að fyrirmyndarlandinu liggja meðal allra þeirra einstaklinga sem hafa risið upp á afturlappirnar og ákveðið að gera eitthvað í því sem þeim finnst vera að í samfélaginu. Samfélagsumbætur eiga oftast rætur sínar að rekja til þeirra einstaklinga sem komu með tillögur að breytingum, kröfðust þeirra eða umbáru ekki lengur óréttlætið sem þeir, aðstandendur þeirra eða þeir sem minna máttu sín máttu þola. Þessir einstaklingar fengu aðra í lið með sér til að laga samfélagið og náðu að breyta samfélaginu til hins betra.

Margir þeirra einstaklinga þurftu að sýna fádæma hugrekki, synda á móti straumi hefða og þess sem almennt þótti við hæfi hverju sinni og jafnvel þola ákærur og refsidóma fyrir að sýna þingheimi aðhald. Þeim er ég óendanlega þakklát.

Við sem vinnum á þessum vinnustað þurfum aðhald og áreiti. Takk fyrir öll bréfin, mótmælastöðurnar, greinarnar og nöfnin á undirskriftalistunum. Það er staðreynd að til þess að lifa í því samfélagi sem mann dreymir um að búa í þarf maður að taka þátt í að búa til þann draum. Það kostar ekki mikla vinnu að taka þátt en það er staðreynd að þeir sem breytt hafa heiminum hafa verið einstaklingar með ríka siðferðis- og réttlætiskennd.

Með núverandi þróun stjórnsýsluhefðar hefur það sóst seint og erfiðlega fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem vilja og þrá að taka þátt í að þróa samfélagið okkar en eftir hrun hafa mun fleiri áttað sig á því að það krefst nokkurrar vinnu að búa í heilbrigðu lýðræðissamfélagi. Ef maður lætur kjörna fulltrúa afskiptalausa gera þeir það sem þeim sýnist og komast upp með alls konar afglöp og óhæfu eins og að dansa á mörkum þess að rjúfa drengskaparheitið að stjórnarskránni. Ég hef margoft orðið vitni að því.

Margir áttuðu sig á því að ekki er við hæfi í lýðræðislegu samfélagi að engin önnur leið sé fær til að tryggja vilja meiri hluta almennings en að mótmæla eða gera tilraun til byltingar. Í því uppróti sem átti sér stað hér eftir hrun varð til skýr vilji sem var ekki tengdur flokkspólitík heldur heilbrigðri skynsemi um að við þyrftum að tryggja farveg í stjórnarskrá fyrir vilja fólksins. Sá farvegur var fundinn en hefur margoft verið stíflaður af þinginu og almennum skorti á hugrekki til að veita skriðþunga óskum um breytingar, um nýjan farveg en undanfarið hafa tilraunir verið gerðar til að hefta framstreymið með öllum tiltækum ráðum eins og margur varð vitni að við endamörk síðustu ríkisstjórnar.

Sú staðreynd að ekki tókst betur til en svo að þessi nýi farvegur til að sýna lýðræðislegan vilja fólksins varð aldrei að veruleika er ekki í anda þess fyrirmyndarlands sem mig dreymir um. Fyrir tæplega ári voru landsmenn boðaðir í þjóðaratkvæðagreiðslu og spurðir tiltekinna spurninga en þær voru virtar að vettugi. Það mun reyna á vilja nýs þings til að virða það meirihlutaálit síðar í þessum mánuði þegar þingmenn Pírata leggja fram þingsályktunartillögu þar að lútandi.

En það þarf meira til ef við ætlum okkur að vera fyrirmyndarlandið. Við þurfum að tryggja að rödd og vilji almennings eigi greiðan aðgang að löggjafarvaldinu. Því hafa Píratar ákveðið að taka þátt í að nýta hið frábæra verkfæri beins lýðræðis sem finna má á vefnum Betra Ísland. Þar geta hverjir sem er lagt fram tillögu að þingsályktun, komið með breytingartillögur að fjárlögum, lagt fram drög að frumvarpi og aflað því málefni sem brennur sem skærast meðal þeirra fylgi til að tilteknu lágmarki verði náð svo að málið fái þinglega meðferð. Við höfum heitið því að flytja slík mál og tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku Alþingis á þennan nýstárlega máta. Skorum við hér með á aðra flokka að gera slíkt hið sama. Píratar eru jafnframt með kerfi í þróun sem kallað hefur verið fljótandi lýðræði og munum við kynna það betur fyrir ykkur, kæru landsmenn, þegar það er tilbúið til notkunar. Það kerfi er framlag okkar til nýs heildarkerfis samfélagsins sem einsýnt er að þarf að hanna frá grunni.

Það er vert að hafa í huga hverjir semja lögin sem við þurfum að fara eftir í fyrirmyndarlandinu. Ekki er það löggjafarvaldið sem semur þau. Lögin eru samin í ráðuneytunum og þeir sem koma að því að semja þau, eins og t.d. lög um fjármálafyrirtæki, koma kannski frá fjármálafyrirtækjunum. Það hlýtur því að vera skýlaus krafa okkar hér á Alþingi að við fáum að fylgjast með lagasetningu á frumstigi og fáum að vita nákvæmlega hver skrifar hvaða lagabálk sem á að verða að lögum fyrirmyndarlandsins.

Til þess að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir verða þær að vera byggðar á forsendu þess að aðgengi að upplýsingum sé auðvelt og auðskiljanlegt. Þess vegna ættum við frekar að gefa í þegar kemur að þeim sjálfsögðu réttindum að hafa aðgengi að upplýsingum er varða almannahag. Ekki er síður mikilvægt að tryggja friðhelgi einkalífs í hinum stafræna heimi því að án þessara tveggja grunnþátta er ekki hægt að stunda lýðræðislega þátttöku af fyllsta öryggi né á vitrænan máta.

Í fyrirmyndarlandinu góða notum við grænu orkuna okkar af skynsemi til iðnaðar sem gefur meira af sér til alls samfélagsins en stóriðja er þekkt fyrir. Ef við ætlum okkur að nýta þau miklu tækifæri til uppbyggingar á gagnaverum verður ríkisstjórnin að gera þrennt til að byrja með: Í fyrsta lagi að klára að smíða og afgreiða lögin sem voru skilgreind í þingsályktun um að Ísland tæki sér afgerandi lagalega sérstöðu á sviði upplýsinga og tjáningarfrelsis, öðru nafni IMMI-ályktunin. Í öðru lagi að hér fari fram sambærileg vinna er lýtur að friðhelgi einkalífsins í hinum stafrænu heimum og í þriðja lagi að þeir sæstrengir sem eiga að flytja gögnin frá landinu séu samkeppnishæfir.

Nú þegar bíða mörg stór fyrirtæki á sviði hýsingar og þeir sem miðla viðkvæmum upplýsingum, eins og t.d. fjölmiðlar, eftir því að IMMI verði meitlaður í lög og því ber að fagna að hæstvirtur menntamálaráðherra hefur heitið því að halda stýrihóp um málefni IMMI-ályktunarinnar lifandi næstu tvö árin. Við eigum í mikilli samkeppni um hvaða land verður fyrsta stafræna fyrirmyndarlandið en með því gætum við tryggt að fólk sem hefur verið að keppast við að mennta sig fái vinnu í samræmi við menntun sína sem og að hér komi fyrirmyndarútlendingar sem hafa áhuga á að vinna hérlendis á þessu sviði og auka þannig við menningu okkar og þekkingu.

Í fyrirmyndarlandinu værum við sjálfbær og umhverfisstefna okkar væri þar að lútandi. Við gætum verið fyrst þjóða til að losa okkur undir þeim viðjum að þurfa að treysta á olíu til að keyra og sigla flotanum okkar. Slík stefna er einföld og mætti miða við þá pólitísku ákvörðun sem var mörkuð þegar við ákváðum að nota jarðhita til að hita upp húsin okkar. Sú framkvæmd var feikilega dýr í skammtímanum en hefur sparað bæði einstaklingum sem og þjóðarbúinu óhemju fjárhæðir og gert lífskjör okkar mun betri, sér í lagi fyrir inniþjóð eins og okkur.

Píratar munu alltaf hafa málefnin að leiðarljósi og munum við vinna jafnt með minni og meiri hluta út frá málefnum þeim er tengjast þeirri stefnu sem við vorum kjörin á þing til að koma í verk. Hjá okkur er ekkert flokksræði og hverjum og einum þingmanni frjálst að fylgja sannfæringu sinni þó að hún stangist á við skoðanir hinna. Við höfum einfalda stefnu þar sem 21. aldar lagasetning, sjálfsákvörðunarrétturinn og lýðræðisumbætur eru áberandi.

Í haust munum við leggja áherslu á að vanda okkur við eftirfarandi málefni: Flytja þingsályktunartillögu um meðferð á frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, vinna að heildarendurskoðun á höfundarétti, þingsályktunartillögu um að stafræn friðhelgi einkalífs njóti sömu verndar og í raunheimum, vinna að þingsályktunartillögu um afglæpavæðingu á fíkniefnamisnotkun, endurskoða lög um mannanafnanefnd, leggja fram skriflegar fyrirspurnir fyrir þá sem hafa enga aðra leið en í gegnum kjörna fulltrúa til að fá aðgengi að upplýsingum sem með sanni ættu að vera aðgengilegar almenningi og við munum spyrna við fótum gegn löggjöf sem við teljum skaðlega og greiða leið fyrir löggjöf sem er í samhljómi við grunnstefnu Pírata.

Í fyrirmyndarlandinu mínu þarf fólk ekki að standa í biðröð eftir mat. Þar þarf fólk ekki að búa við ótta um að eiga ekki þak yfir höfuðið, þar þarf fólk ekki að óttast að fara til læknis vegna þess að það er svo dýrt, þar líða börn, öryrkjar og gamalt fólk ekki skort, þar getur fólk fengið lyfin sín, þar mæla trúarleiðtogar ekki með því að stjórnvöld ljúgi að þjóð sinni, þar verður þjóðarvilji ekki vanvirtur og þar bera þingmenn ábyrgð á gjörðum sínum ásamt öðrum embættismönnum. Í fyrirmyndarlandinu er löggjöf ekki felld úr gildi bara vegna þess að það er ekki réttur flokkur sem setti lögin og því hljóta þau að vera alvond. Í fyrirmyndarlandinu er ekki talið eðlilegt að meirihlutaræðið ráði alltaf heldur er reynt að finna sameiginlegar lausnir í þjóðarsátt. Í fyrirmyndarlandinu er ekki ótti við þjóðaratkvæðagreiðslur né hið óþekkta vegna þess að landsmenn vita hvert þjóðarskútan stefnir og þeir fá að taka þátt í að þróa þá stefnu miklum mun oftar en á fjögurra ára fresti. Í fyrirmyndarlandinu þykir það til fyrirmyndar að viðurkenna mistök og jafnvel axla ábyrgð á þeim.

Kæru landsmenn. Ykkar er valið, valdið og ábyrgðin. Þið eruð kerfið. Við sem erum hér inni erum endurspeglun á ykkur. Veitið okkur sem störfum hér í ykkar þágu stífa viðspyrnu ef farið er af leið sem er til heilla fyrir fyrirmyndarlandið og krefjist þess að vald ykkar og vilji sé virtur, en það vald var það sem þið fóluð valdhöfum og ef þeim er fyrirmunað að halda loforðin er ykkar að tryggja að loforðin verði efnd.