143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. „Auðveldara er úlfalda að komast í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Þessi tilvitnun úr Markúsarguðspjalli kom fram í predikun í Dómkirkjunni við þingsetninguna í gær. Þessum texta má eflaust leggja út af á ýmsa vegu þó að hann sé nokkuð afdráttarlaus en hann segir manni að það skiptir máli hvernig maður nálgast viðfangsefnin og hvaða sýn maður hefur á erfið verkefni, þ.e. hvernig ná má árangri í þröngri stöðu ef forgangsraðað er rétt með hagsmuni heildarinnar í huga.

Fyrri ríkisstjórn komst í gegnum svona nálarauga í glímunni við hrikalegar afleiðingar hrunsins; fyrst og fremst vegna þess að farin var blönduð leið hagræðingar og skattlagningar og byrðunum dreift sem jafnast eftir efnum og aðstæðum og velferðarkerfinu hlíft eins og kostur var. Núverandi ríkisstjórn uppsker nú árangur fyrri stjórnvalda sem tókust á við fordæmalausar aðstæður við að endurreisa efnahagslífið og hafði tekið stefnuna á að hefja kraftmikla uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og öðrum innviðum samfélagsins.

Fyrstu verk nýrrar ríkisstjórnar benda til þess að hún ætli að nálgast viðfangsefni sitt með allt öðrum hætti og vera í hlutverki auðmannsins í dæmisögunni hér að ofan og nái því ekki tilætluðum árangri sem skili sér í hús fyrir alla landsmenn heldur aðeins þá útvöldu. Fyrsta verk þessarar hægri ríkisstjórnar var að slá skjaldborg um auðmenn landsins og afsala sér tekjum á ársgrundvelli um tugmilljarða í sérstöku veiðigjaldi, virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og að framlengja ekki auðlegðarskattinn og orkuskatt á stórfyrirtæki.

Forsætisráðherra dregur upp í stefnuræðu sinni mynd af fyrirmyndarlandi, að það geti verið rétt innan seilingar, að Ísland geti orðið slíkt ríki. Ég segi: Veldur hver á heldur. Það getur verið auðvelt að glutra niður þeim árangri sem náðst hefur. Ríkisstjórnarflokkarnir fóru fram með miklu loforðaflóði fyrir kosningar og nýtt fjárlagafrumvarp sýnir að innstæður fyrir þeim loforðum voru alls ekki í hendi. Heimsins mesta skuldaleiðrétting sögunnar sem forsætisráðherra hefur boðað bíður enn eftir því að líta dagsins ljós eins og svo margt annað. Það er nefnilega auðveldara um að tala en í að komast og stefnuræða forsætisráðherra markast af skýjaborgum og fögrum fyrirheitum sem reynast létt í vasa fyrir fólk sem trúði þessum óábyrgu kosningaloforðum.

Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er langt frá því að vera í takt við það sem mátti skilja á orðum hæstv. forsætisráðherra. Það er sorglegt hve mikil skammsýni ríkir hjá stjórnvöldum og gamaldags hugsun, að ætla að hverfa frá því að auka fjölbreytni og nýsköpun í íslensku atvinnulífi með miklum niðurskurði í framlögum til rannsókna, tækniþróunarverkefna og stuðningi við ferðaþjónustuna og hinar skapandi greinar en þessar greinar hafa verið að skapa þjóðinni miklar tekjur og fjölda starfa á erfiðum tímum. Já, ég segi að þetta sé niðurrifsstarfsemi á því sem vel tókst til hjá fyrri ríkisstjórn.

Og landsbyggðin, hún fær kaldar kveðjur frá þessari ríkisstjórn. Fjöldi verkefna er sleginn af, sem voru í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Sóknaráætlun landshlutanna sem miklar vonir voru bundnar við er dregin saman í nánast ekki neitt. Flutningsjöfnuður til útflutningsfyrirtækja á landsbyggðinni er lagður af. Niðurgreiðslur til húshitunar á köldum svæðum eru lækkaðar. Framlög til fjarskiptasjóðs eru lækkuð, en hann hefur það hlutverk að styðja við uppbyggingu háhraðatengingar í dreifðum byggðum. Mikill niðurskurður er í almennum vegaframkvæmdum sem kemur harðast niður á þeim svæðum sem búa við lélegar samgöngur fyrir. Stuðningur við innanlandsflugið á ríkisstyrktum leiðum verður stórlækkaður. Uppbygging á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni er slegin af. Svona mætti lengi telja. Aukaframlag til Byggðastofnunar vegna brothættra byggða er fellt út. Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi.

Ég auglýsi hér með eftir landsbyggðarþingmönnum ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega framsóknarmönnum sem börðu sér mjög á brjóst á síðasta kjörtímabili. Ég kalla eftir tillögum þeirra um jöfnun orkuverðs í landinu. Fyrri ríkisstjórn var lögð af stað í þá vegferð að jafna búsetuskilyrði landsmanna við erfiðar aðstæður og það er óþolandi að snúið sé við af þeirri braut. (Gripið fram í.)

Það er ekki verið að skila því sem öldruðum og öryrkjum var lofað fyrir kosningar og nú blasir við að keyra eigi rekstur Landspítalans fram af bjargbrúninni eins og fráfarandi forstjóri orðaði það í kjölfar uppsagnar. Það er seilst í dýpstu vasa frjálshyggjunnar, að taka upp legugjöld á sjúklinga.

Það er undarlegt að stjórnvöld sem töluðu um nauðsyn þess að efla atvinnusköpun hafi það sitt fyrsta verk að beita niðurskurðarhnífnum þar sem helst er vöxtur í nýsköpun í landinu.

Hveitibrauðsdagar þessarar hægri stjórnar eru liðnir og úti í þjóðfélaginu er talað um mikla óvissu. Hæstv. forsætisráðherra talar um það í lok ræðu sinnar að til sé fólk sem hafi ekki trú á Íslandi og ali á sundrungu og aðhyllist öfgafulla hugmyndafræði. Það væri fróðlegt að sjá nánari skilgreiningu á þessum orðum. Er það sú hugmyndafræði sem olli hruninu sem er öfgakennd eða sú hugmyndafræði sem kom okkur út úr kreppunni? Í mínum huga er það sú fyrri sem leiddi til hrunsins. (Gripið fram í.) Með jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi mun okkur farnast vel og þá verður okkur það létt verk að komast í gegnum þau nálaraugu sem verða á vegi okkar í komandi framtíð. — Góðar stundir.