143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði verið fróðlegt að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon fara yfir það af hverju ekki voru lögð hærri veiðigjöld á fyrirtæki í uppsjávarveiðum, af hverju núverandi ríkisstjórn hækkaði þau. Var þá hv. þingmaður ekki að afsala sér tekjum þar?

Varðandi Icesave-málið tek ég undir með hv. þingmanni, við þurfum líklega lengri tíma til þess að ræða það og ég og hv. þingmaður verðum seint sammála í því máli, hvernig á því var haldið og niðurstöðu þess á endanum. Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum lengri tíma til þess að ræða það og hugsanlega annan vettvang en þennan.