143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég geri fastlega ráð fyrir að eitthvað af þessum 20 milljörðum fari í að reka heilbrigðiskerfið eða menntakerfið, væntanlega er eitthvað smávegis tekið í það, maður skyldi nú ætla það. Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann en mig langar hins vegar að velta einu upp í þessari umræðu og kannski geta þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar, ef ég orða það þannig, sem eiga hér eftir að koma, svarað. Nú er ferðaþjónustan að verða ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar eða er jafnvel orðin það. Þá spyr maður: Eiga sömu sjónarmið að gilda varðandi hana? Á ferðaþjónustan að borga auðlindagjald eða hvað við köllum það fyrir afnot af náttúru landsins? (Gripið fram í.) Eigum við að gera það?

Við hljótum væntanlega að þurfa að láta eitt yfir alla ganga, við getum kallað það hvað sem er en hér er talað um auðlindagjald, veiðigjald. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það sama gildi um ferðaþjónustuna, orkufyrirtækin og aðra. Ég nefndi þetta áðan í ræðu minni. Það væri ágætt að heyra hvernig mönnum líst á þetta.