143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Varðandi nýja Landspítalann er vert að minna hæstv. ráðherra á að fyrir kosningar var pólitísk samstaða um að byggja nýjan spítala. Aðeins Framsóknarflokkurinn var á móti og það er kostnaðurinn af þessu ríkisstjórnarsamstarfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að nýju sjúkrahúsi er fórnað þrátt fyrir áherslur flokksins á heilbrigðismál í kosningabaráttunni. Ég er ekki að spyrja um hvort áætlanir verði gerðar fyrir lok kjörtímabilsins heldur hvort verið sé að vinna að áætlun núna, hvort ráðherra sé að setja í gang vinnu um hvernig sé með sem skjótustum hætti hægt að gera áætlanir um uppbyggingu. Það eru mjög mikilvæg skilaboð inn á Landspítalann að verið sé að taka þetta mál föstum tökum.

Varðandi sjúkratryggingar þá eru líka heimildir til þess að setja þar inn takmarkanir. Fram kemur í frumvarpinu að stefnt er að markmiðum um lækkun útgjalda með aukinni greiðsluþátttöku, það er náttúrlega inntakið í því. Það er mjög óheppilegt að á öllum sviðum er augljóslega verið að auka greiðsluþátttöku fólks og það áður en vinnu nefndarinnar, sem Pétur Blöndal stýrir, er lokið. Það er óheppilegt því að það þarf að skoða það allt í heildrænu samhengi en með öðrum takmarkandi aðgerðum.

Ráðherra hefur reglugerðarheimild til þess að stýra aðgengi að þessari þjónustu og það er ekkert sem segir að við séum skuldbundin til þess að að dæla endalaust fé úr ríkiskassanum inn í sérgreinalækningar ef það er takmarkað, þannig að mér finnst það ekki vera svar. Ég tel þá að ráðherra verði að svara því hvernig hann (Forseti hringir.) hyggist beita þeim tækjum sem hann hefur til þess að draga úr útgjöldum til sjúkratrygginga.