143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Jú, Ísland er smáríki og við þurfum að gæta hagsmuna okkar og að sjálfsögðu er verið að gera það á hverjum degi. Það er ágætt að rifja það upp að búið er að taka mikið niður, ég ætla að leyfa mér að orða það þannig, skera mikið niður í utanríkisþjónustunni undanfarin ár. Frá 2006 hefur útsendu starfsfólki fækkað um 25% sem er þó nokkuð mikið. Það er búið að loka þremur sendiráðum o.s.frv. En um leið og við tölum um að við þurfum að efla okkur út á við og gæta hagsmuna okkar þurfum við að sjálfsögðu að horfa til þess að því fylgir kostnaður. Ég veit að hv. þingmaður var ekki að gagnrýna það.

Þær 45 milljónir sem hafa verið nefndar hér eru ætlaðar til þess að reyna að styrkja okkur gagnvart EES-samningnum og þeirri vinnu allri saman. Við eigum hins vegar í mjög góðu samstarfi vil ég meina og samtali við fulltrúa Evrópusambandsins og við einstök Evrópuríki. Ég nefni Þýskaland, Frakkland og Danmörku. Samskiptin eru mjög góð. Kannski er gott dæmi um áhuga á Íslandi einmitt verkefnið sem Bremenhöfn er að sýna á Norðausturlandi; hvað sem mönnum finnst um verkefnið sýnir það að áhugi er á Íslandi þó að sett hafi verið hlé á aðildarviðræðurnar.

Vettvangur okkar í alþjóðasamstarfi og sérstaklega þegar kemur að Sameinuðu þjóðunum og öðru slíku hefur að miklu leyti verið mannréttindi og svo að nýta að sjálfsögðu sérkunnáttu okkar þegar kemur að jarðhita og slíku. Ég sé fyrir mér að við munum nota þessa fjármuni, og það er tilgangurinn, til þess að gera rödd okkar enn þá sterkari þegar við ræðum jafnréttismál og þegar við ræðum um réttindi svokallaðra minnihlutahópa. Þegar við höldum merkjum okkar á lofti og gerum okkur gildandi kostar það að sjálfsögðu peninga. Ég sé fyrir mér að við munum eflast á þessu sviði, að gæta mannréttinda (Forseti hringir.) eins og við höfum gert, setja meira púður í það.