143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta gleður mig mikið, ég þakka kærlega fyrir og hlakka mikið til að starfa með ráðherranum.

Ég ætla að reyna að svara spurningunni um hvað hægt sé að gera. Í McKinsey-skýrslunni er talað um fjóra þætti sem þurfa að vera til staðar til að skapa vistkerfi fyrir internetið. Einn þeirra er að vera aðgengi að góðum mannauði og við náum því ekki í þessum málaflokki sem við erum að ræða hér. Þá kemur menntakerfið til skjalanna, það þarf að bjóða upp á nám í forritun og það þarf að gera erlendum aðilum sem hafa sérþekkingu á sínu sviði auðveldara að koma til Íslands. Framkvæmdastjóri CCP sagði að það væri auðveldara að flytja inn kóralla í fiskabúrið í fyrirtækinu en að flytja inn starfsmann sem er með sérþekkingu á sviði sem mundi nýtast þar.

Svo þarf að laga fjárfestingarumhverfið. Það er verið að vinna í því og við vonum bara að það gangi sem best, þar er aðalakkillesarhællinn. Það þarf að tryggja innviðina, að tengingarnar séu góðar, og það þarf að tryggja að hér sé gott viðskiptaumhverfi. Það er kannski hægt er að gera í þessum málaflokki, að bæta þar í.

Á samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi kemur fram að þeim markmiðum verður ekki náð nema með því að nýta helstu sóknarfærin sem bjóðast í alþjóðlega geiranum, þ.e. þau fyrirtæki sem geta farið úr landi ef þau svo kjósa. Þau eru ekki háð orkuauðlindum eða einhverju slíku á Íslandi. Við sjáum að þau fyrirtæki geta auðveldlega farið úr landi og það er kannski ekki endilega slæmt þegar upp er staðið að þau fari úr landi því að þau skapa mikilvæg tengsl og sérþekkingu sem getur flætt til Íslands, m.a. aðgengi að fjármagni erlendis. Við höfum séð það.

Þá þurfum við á sama tíma að vera með öflugt umhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki til að vaxa á Íslandi og taka við boltanum frá þeim aðilum sem fara af landi brott.