143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður eigum alveg að geta unnið vel saman að þessu áfram. Það er margt þarna sem rímar vel við það sem við erum þegar farin að huga að í ráðuneytinu. Ég held að það að gera það auðveldara að flytja erlenda sérfræðinga hingað til lands sé gríðarlega mikilvægt. Það kom meðal annars fram í tillögum hinnar svokölluðu Fjárfestingarvaktar sem sett var á laggirnar á síðasta kjörtímabili og skilaði tillögum til mín í sumar. Þær miða allar að því að bæta hér fjárfestingarumhverfið og við munum fara í að endurskoða lögin um erlendar fjárfestingar og ívilnanalöggjöfina.

Eitt af þeim atriðum sem þeir nefndu sérstaklega var að athuga með þá löggjöf sem snertir einmitt það að geta flutt hingað hámenntað fólk sem sérfræðinga án þess að það þurfi að gerast ríkisborgarar til þess að auðvelda því að fá atvinnuleyfi og vinna í fyrirtækjum eins og því fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er þegar komið í vinnslu, ég get glatt hv. þingmann með því.

Við erum líka vakin og sofin yfir því að laga fjárfestingarumhverfið og varðandi innviðina kemur vonandi bráðum annar fjarskiptakapall frá Bandaríkjunum til Skotlands sem hefur viðkomu hér. Emerald-fyrirtækið er að undirbúa það og vona ég svo sannarlega að það verði að veruleika. Það getur líka dregið hingað til lands fleiri fyrirtæki, t.d. í gagnaversiðnaðinum sem tengist þessu og er nátengdur internetinu.

Ég held að við þurfum bara að setjast yfir þetta, skoða þetta í þaula og finna út hvernig við getum sem best bætt þetta umhverfi og að lokum einmitt það sem var talað um í sambandi við mannauðinn, skoða hvernig þetta rímar saman við þá áherslu sem við höfum í menntamálum.