143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er að svo mörgu leyti skemmtilegt að heyra þessa ræðu endurflutta af hæstv. ráðherra í dag, að stöðva þurfi skuldasöfnun. Sá tónn heyrðist ekki þegar við vorum að reyna að bjarga þessari þjóð eftir að kominn var 200 milljarða halli á ríkissjóð í upphafi síðasta kjörtímabils.

Það sem vekur athygli mína er að hæstv. ráðherra og ráðherrar almennt í dag hafa enga trú á því sem þeir töluðu um fyrir kosningar þegar þeir ætluðu að stækka kökuna. Þeir ætluðu að breikka tekjustofna. Ég spurði nákvæmlega um slíka þætti en nú ætlar hæstv. ráðherra að skera það niður og svo fáum við tækifæri einhvern tíma seinna til þess að stækka kökuna. Menn hafa ekki mikla trú á því sem þeir höfðu sjálfir talað um.

Talað er um að lækka álögur á einstaklingum. Það kann að vera að það nýtist þeim sem eru í skapandi störfum en til þess að horfa til framtíðar var byrjað að endurgreiða rannsóknar- og þróunarkostnað hjá nýsköpunarfyrirtækjum, sem var auðvitað gert til þess að örva atvinnulífið í þessum greinum vegna þess að þar var auðveldast að sækja vöxtinn. Hvað er gert í þessum fjárlögum? Það er lækkað um fjórðung, farið úr 20% í 15%. Hvaða skilaboð er verið að gefa með því? Eru það skilaboð um að nú eigi að auka eingöngu í sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og áliðnaði? Ég held að það sé rangt val og ég held að það skipti mjög miklu máli að menn a.m.k. hafi trú á því sem þeir hafi sjálfir lagt fram og reyni að breikka grunninn fyrir góða afkomu íslenska ríkisins.

Varðandi lánasjóðinn höfum við vonandi tækifæri — ég hef óskað eftir því að fundað verði um það sérstaklega í allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að nú höfum við tíma. Ráðherra var rekinn til baka með lækkun sína sem hann ákvað að gera þrátt fyrir viðvörun fyrrverandi menntamálaráðherra um að ólöglegt væri að gera það með þeim hætti. Ég get fært fyrir því mikil rök að sú breyting sem gerð var á lánasjóðnum bitnar á ákveðnum hópum.