143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er dálítið miður að þessi mikilvægi málaflokkur sé svona seint á dagskrá í þessari umræðu sem hefur verið mjög góð. Ég hef lofað þetta fyrirkomulag og geri það áfram. Umræðan verður miklu málefnalegri og ráðherrann er ætíð til svara.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að það er mjög brýnt að Alþingi haldi í þann afgang sem er á fjárlagafrumvarpinu og í breytingum Alþingis, ef menn vilja gefa einhvers staðar eftir sé aflað tekna á móti eða skorið niður annars staðar, þannig að afgangurinn haldist. En svo kemur að því að menn sýni þann aga að fjárlögin og fjáraukalögin komi fram í ríkisreikningi með raunverulegum hætti en ekki eins og verið hefur undanfarin þrjú ár þar sem munaði 101 milljarði á ríkisreikningi og fjárlögum. Það segir mér að ekkert hafi verið að marka fjárlögin. Og áhrif fjárlaga eða ríkisreiknings eru nákvæmlega þau sömu. Halli á ríkissjóði þýðir náttúrlega bara verðbólgu. Við erum búin að glíma við mikla verðbólgu þrátt fyrir mikla stöðnun og hún kemur niður á sparifjáreigendum og alveg sérstaklega lántakendum þegar nafnverð íbúðalána hækkar.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, sem flutti hér mjög góða ræðu, um Íbúðalánasjóð og lækkun stimpilgjalda. Stimpilgjöld heyra reyndar ekki undir hennar ráðuneyti en lækkun þeirra kann að leiða til þess að menn muni greiða upp lán í Íbúðalánasjóði. Ég vil spyrja hvort ekki sé þá ráð að hækka eða nota yfirleitt uppgreiðslugjaldið sem ekkert hefur verið notað til að hamla á móti því að menn noti lækkun stimpilgjaldsins til að greiða upp lánin.

Svo vil ég spyrja hana um jafnlaunavottun sem ég átti þátt í á sínum tíma að koma á og er mjög stoltur af og tel vera stórt skref í þá átt að bæta jafnrétti kynjanna og jafnrétti fólks yfirleitt, hvort hennar sjái einhvers staðar stað eða hvort þess þurfi ekki lengur, það sé komið á góðan rekspöl.

Síðan vil ég spyrja hana um notendastýrða persónulega aðstoð sem voru gerðar tilraunir með, með um 50 millj. kr. framlagi minnir mig, hvort meiningin sé að halda því verkefni áfram eða hvort beðið verði með það. Ég ætla nú ekki að koma inn á starfsgetumatið, ég er að vinna með hæstv. ráðherra í því, en ég tel mjög brýnt að öryrkjar geti haldið tengslum við atvinnulífið. Ég hef ekki heyrt um einn einasta öryrkja sem ekki vill vinna.

Síðan er dálítið merkilegt að barnabætur, vaxtabætur og allar bætur lífeyrissjóðanna heyra bara ekkert undir félagsmálaráðherra. Það er spurning hvort ekki sé ástæða til að vinda bráðan bug að því að setja þessa liði alla undir félagsmálaráðuneytið.