143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

framlagning lyklafrumvarps.

[14:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að óvissunni þarf að fara að eyða. Ég minni hins vegar á að þessi óvissa er ekki fjögurra mánaða gömul, ætli hún sé ekki um það bil fimm ára gömul. (Gripið fram í.) Við erum algerlega sammála um það að óvissan hefur verið allt of lengi gagnvart þessum hópi og málið þarf að leysa.

Þegar ég talaði um að við mundum ljúka þessari vinnu á næstu tveimur vikum átti ég við vinnuna sem var falin í þeirri þingsályktunartillögu sem hér stendur og tillögu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Þessar tillögur okkar verða afhentar ráðherrahópnum sem ég vék einnig að og tillögurnar koma síðan í heild sinni fram síðar eins og þinginu hefur ítrekað verið gerð grein fyrir.