143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra má treysta því að efnahags- og viðskiptanefnd mun ekki draga af sér við að skoða þessi mál. Ég skal vera með í þeim hópi varðandi bankaskattinn. Ég er mjög áhugasamur um það mál. Til að það misskiljist ekki er ég hlynntur því að við reynum að ná þessum skatti, þessum tekjum, skárra væri það nú, ég hef nú yfirleitt verið frekar þekktur fyrir eitthvað annað. Það eru einfaldlega þeir fyrirvarar á af minni hálfu að þetta reynist lagalega og tæknilega mögulegt og við komumst upp með þetta.

Auðvitað getur maður varla setið á sér með að nefna að ef við náum þarna kannski 22 milljörðum á tveimur árum út úr búunum í skattgreiðslur á kostnað kröfuhafanna, sem eiga svo það sem eftir stendur, eru þeir 22 milljarðar ekki að fara í að lækka skuldir heimilanna eins og talað var einhvern tímann um að ávinningur úr þessari átt ætti að ganga til.

Varðandi skattprósenturnar og hvernig við stöndum vörð um hina tekjulægstu er þetta eins og ráðherra kom réttilega inn á í sínu máli, það þarf alltaf að skoða heildarmyndina. Við þurfum að skoða tilfærslukerfin og vaxtabæturnar og barnabæturnar, skattleysismörkin og allt þetta. Það er ekki bara ein prósenta eða því um líkt. Það var auðvitað allt sett í samhengi. Við lágtekjutengdum meira í meira mæli stuðningsaðgerðirnar í kerfinu líka til að hjálpa tekjulægstu hópunum á þessum erfiðustu árum.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála þeim samanburði og aðferðafræði við að leggja saman lífeyrisskuldbindingarnar og skatttekjurnar sem koma svo við útgreiðslur frá þeim og kalla það allt saman skattprósentu á einstaklinga. Þegar lífeyrir kemur til útgreiðslu er verið að taka í raun og veru, sem er umdeilanlegt mál að sjálfsögðu, fullan tekjuskatt af ávöxtuninni sem margir hafa sagt að ætti frekar að meðhöndlast eins og fjármagnstekjur og sæta fjármagnstekjuskattlagningu. Þá hækkar prósentan vissulega dálítið mikið ef maður tekur með í reikninginn að maður tekur allar útgreiðslurnar, bæði lífeyririnn eins og hann var borgaður inn á sínum tíma, skattfrjáls, og þá ávöxtun sem hann hefur tekið á sig og lætur borga af því fullan tekjuskatt þegar greitt er út. Það kemur sér vel fyrir ríki og sveitarfélög, en það má auðvitað segja að sé dálítið harkaleg skattlagning.