143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í ræðu um 2. þingmálið hér áðan, um tekjuöflunaráhrif, þá gerði ég þetta frumvarp að umtalsefni og vil gera það líka á réttum stað á réttum tíma í umræðum um þetta frumvarp. Ég ítreka það sem ég sagði um að ég vildi að fram kæmi leiðrétting á tali hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði um það góða sem væri í því frumvarpi, þ.e. skattalækkun í milliskattsþrepinu upp á 5 milljarða, og sagði að ráðstöfunartekjur heimilanna mundu aukast um 5 milljarða. Þá vil ég gera aðeins að umtalsefni það skattahækkunarfrumvarp sem hér er sett fram sem er upp á a.m.k. 3 milljarða ef ekki meira ef farið er í aðra hópa í þjóðfélaginu. Má þar til dæmis taka áform frá fyrri ríkisstjórn sem eru slegin á frest eða út af borðinu, eins og lenging fæðingarorlofs úr níu í tólf mánuði sem er slegin út og ýmis atriði önnur sem eru í þessu frumvarpi eins og hækkun innritunargjalda í opinbera háskóla úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. sem gefur ríkissjóði 213 milljónir og kostar þá nemendur í opinberum háskólum 213 milljónir. Ég er ekki viss um að við getum reiknað það út að fólk sem er í opinberum háskólum fái skattalækkun á móti þeirri hækkun sem þarna kemur fram. Ég leyfi mér jafnvel að efast um það.

Í þeim töflum sem ég hef því miður ekki með mér en hafa verið birtar um hvernig áhrifin af 0,8% lækkuninni virka þá voru þau um 40 þús. kr. á mann sem er eitthvað í kringum 700 þús. kr. sem er mesta hækkunin og fer hún lækkandi niður stigann niður í þá sem eru þar rétt við mörkin eða í kringum þau, þ.e. 241 þúsund. Það má taka ýmislegt fleira sem blandast inn í þetta.

Ég verð í raun og veru að hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir síðustu ræðu sína þegar hann brást við því sem ég setti fram um þær hækkanir sem hér eru, að nettóáhrifin yrðu minni en þessir 5 milljarðar. Hann tók undir það og þess vegna finnst mér rétt að það komi fram að þetta kemur svona út hvað varðar ráðstöfunartekjur heimilanna.

Það má kannski líka alveg segja og taka undir það sem hér hefur komið fram að þær vísitöluhækkanir, þær verðlagshækkanir sem settar eru hérna fram eru góðkunningjar okkar sem höfum setið á Alþingi áður, frá öllum ríkisstjórnum. Mér finnst það dálítið hjákátlegt og spaugilegt að þegar formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn í stól fjármálaráðherra skuli þriðja frumvarpið sem hann flytur fela í sér slíkar hækkanir, að hann skuli koma með svona frumvarp sem hann og hans flokksmenn gagnrýndu okkur mest fyrir undanfarin ár. Það væri mjög fljótlegt að fara í gagnagrunn Alþingis og finna tillögur frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að hætta við og fresta og jafnvel lækka álögur á eldsneyti til að lækka vísitölu neysluverðs. Það sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann. Formaður Sjálfstæðisflokksins kemur nú með þessi gömlu úrræði, þau úrræði sem tengjast því verðbólguþjóðfélagi sem við lifum í að koma með hækkanir til að halda tekjunum. Það er ekkert smáræði í þessu frumvarpi sem er til hækkunar á krónusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Má þar nefna, og hefst nú upptalningin — hver vill telja hvað þetta er margt? (Gripið fram í: Ég er búinn að því.) Hækkun á olíugjaldi, hækkun á almennu og sérstöku kílómetragjaldi, hækkun á almennu og sérstöku bensíngjaldi, hækkun á kolefnisgjaldi, hækkun á raforkuskatti, hækkun á bifreiðagjaldi, hækkun á gjöldum á áfengi og tóbaki, hækkun á gjaldi til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þá er einnig að finna tillögur um hækkun á öðrum gjöldum eins og skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, sóknargjöldum og framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar.

Virðulegi forseti. Ég tek það fram að ég er ekki að andmæla mörgum af þeim hækkunum sem hér eru. Ég bendi bara á það lýðskrum sem tíðkaðist í raun og veru hjá síðustu stjórnarandstöðu, þ.e. sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum, á þeim erfiðleikaárum sem Samfylking og Vinstri græn þurftu að leiða ríkisstjórn þessarar þjóðar og bjarga henni frá því gjaldþroti sem blasti við. Eru ekki nákvæmlega fimm ár í dag síðan eða hvað? Fer ég ekki út í upprifjun á þeim sorgardegi eða þeim heimsóknum sem farið var í bæði til ríkisstjórnar og annarra.

Það eru líka aðrir þættir hér en þeir sem ég hef talið upp, þ.e. til hækkunar. Það mjög bagalegt að sjá hér líka að dregið verður úr stuðningi við nýsköpunarfyrirtækin en verk síðustu ríkisstjórnar var að auka þar skattafslátt. Hann er 20% en hér er gerð tillaga um að lækka hann í 15%.

Má ég líka nefna annað, af því að fjármálaráðherra kemur aðeins hingað inn, sem er ekki í þessu frumvarpi, einn skatt í viðbót, sjúklingaskattinn. Ríkisstjórnin ákvað að afnema gistináttaskatt af erlendum ferðamönnum sem innlendum og tók upp gistináttaskatt á sjúklingum á sjúkrahúsum. Ég hlustaði auðvitað á það þegar hæstv. forsætisráðherra brá sér á kjördæmafund Framsóknarflokksins á Akureyri um síðustu helgi. Það sem hann sagði þar kom í bakið á hæstv. fjármálaráðherra. Blekið var varla orðið þurrt á fjárlagafrumvarpinu þegar forsætisráðherra var farinn að bora á það gat. Ég styð forsætisráðherra alveg hispurslaust í því að afnema þennan sjúklingaskatt. Ætli margir af þeim sem þurfa að borga sjúklingaskatt verði ekki komnir í mínus miðað við þá 0,8% tekjuskattslækkun sem þarna er og ýmsar aðrar álögur sem hér eru settar fram?

Virðulegi forseti. Eins og ég segi hendir þetta stundum þá sem gagnrýna mest. Flokksmenn hæstv. fjármálaráðherra, sjálfstæðismenn, voru fremstir í flokki á síðasta kjörtímabili að gagnrýna það sem þáverandi ríkisstjórn setti fram, m.a. það sem hæstv. fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins koma svo með inn núna.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þá 0,2–0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs sem hér er boðuð. Ég vona að hún standi, að hún verði ekki hærri. Oft og tíðum eru þessir útreikningar þannig að það getur munað einhverju, vonandi verður það til lækkunar en ég óttast að það verði til hækkunar. Hvað hækkar þessi 0,2–0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs, sem leiðir af því hækkunarfrumvarpi sem hér er sett fram, skuldir heimilanna mikið? Hvað hækkar hún mikið skuldir atvinnulífsins? Nú kann vel að vera, virðulegi forseti, að ég geti líka farið í gamlar ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins frá síðasta kjörtímabili og fundið svörin við þessu. En ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Væri hann ekki til í að svara þessu? Í ráðuneytinu hlýtur að hafa verið farið yfir forsendurnar á því sem þarna er sett fram.

Ég spyr líka út í tryggingagjaldið. Til að koma til móts við atvinnufyrirtækin í landinu er tryggingagjald lækkað, sem ég er mjög hlynntur. Er ekki svigrúm til að lækka það meira? Mér finnst endilega að ég hafi heyrt í umliðinni kosningabaráttu að eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs sé í kringum 25–30 milljarða kr. þótt búið sé að greiða út um 120–130 milljarða á undanförnum fimm árum í atvinnuleysisbætur. Tryggingagjaldið var hækkað eftir tillögum frá Samtökum atvinnulífsins eftir hrun til að koma til móts við hið mikla og slæma atvinnuleysi sem okkur hefur ekki tekist að vinna nógu mikið niður. Er ekki meira svigrúm til að koma til móts við fyrirtækin í landinu og lækka tryggingagjaldið meira en þarna er boðað, 0,1%, miðað við sterka stöðu? Hefur hæstv. fjármálaráðherra upplýsingar sem hann getur fært okkur við þessa umræðu? Það má segja honum til hróss að hann situr hér vel yfir þessari umræðu og hlustar á okkur þingmenn og svarar. Hefur hann svör á reiðum höndum hvað þetta varðar? Hvert er hans mat á því ef þetta er svona með meginstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs? Væri hægt að lækka tryggingagjaldið meira eða er þetta kannski gulrót sem á að bíða komandi kjarasamninga og spila út síðar? Það kann að vera.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég vildi setja hérna fram. Ég hef fjallað um megnið af því sem stendur í þessu frumvarpi, sem eru þessar hækkanir, og eins og ég segi: Það sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann. Hans öflugu flokksmenn höfðu mjög hátt um þær hækkanir sem við gerðum á síðasta kjörtímabili á mörgum af þeim gjöldum sem hér eru sett fram en nú skila sjálfstæðismenn auðu og láta ekki sjá sig eða koma ekki í umræðuna og tjá sig ekki um það sem þeir töluðu sem mest um á síðasta kjörtímabili.