143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta þingheim með langri ræðu en líkt og hv. þm. Kristján Lúðvík Möller gat ég ekki staðist freistinguna að koma hingað upp og rifja upp glæsilegustu ræðurnar sem Bjarni Benediktsson, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, flutti hér á síðasta kjörtímabili.

Tvisvar sinnum á hverjum einasta vetri hið minnsta kom hæstv. ráðherra og flutti skörulegar ræður um nauðsyn þess að lækka bensíngjaldið og olíugjaldið og allt, hvað sem það nú heitir, til að hjálpa almúganum í erfiðri stöðu. Núna kemur hæstv. ráðherra og leggur til nákvæmlega sömu hækkanirnar og hann blés eins og stormur yfir á síðasta kjörtímabili. Hv. þm. Birgir Ármannsson hímir í afherbergi, vill helst ekki láta sjá sig hér vegna þess að enginn hélt jafn innblásnar ræður og hann á síðasta kjörtímabili, árvisst á hverju hausti.

Ég verð að segja að ég hef fullan skilning á þessu frumvarpi. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að hæstv. ráðherra leggi til hækkanir af þessu tagi. Það er ýmislegt í frumvarpinu sem ég er ekki sáttur við en ég kem hingað til að vekja eftirtekt á því hversu alger viðsnúningurinn er hjá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna. Það er kannski þess vegna þegar ég horfi yfir þennan sal sem ég tek eftir því, herra forseti, að einu þingmennirnir sem eru staddir hér úr stjórnarliðinu eru nýir þingmenn og þeir eiga lof og hrós skilið fyrir það. En hinir skammast sín svo mikið að þeir þora ekki að láta sjá sig vegna þess að þeir eru hér að standa að því sem þeim þótti allra verst á síðasta kjörtímabili. Svona er nú lífið skrýtið og tekur undarlegar vendingar.

Það kemur auðvitað í ljós þegar menn fara yfir frumvarpið að smám saman eru að koma fram töluvert miklar breytingar á velferðarkerfinu. Ég tek eftir því til dæmis að það er í þessu frumvarpi sem menn eru að skerða fæðingarorlofið og af því að menn voru að tala í dag um veiðigjaldið þá sagði hæstv. fjármálaráðherra að útgerðin hefði aldrei borgað jafn mikið veiðigjald og núna. Það er alveg hárrétt hjá honum. Það breytir engu um það að hún hefur aldrei haft það jafngott og núna og hún gæti borgað meira og hún á að borga meira vegna þess að hún fær í reynd einokunarrétt á því að nýta auðlindirnar sem við eigum öll. En það kostar þegar menn kasta burt tekjumöguleika af þeim toga. Það kostar það til dæmis að hæstv. fjármálaráðherra þarf að pína sjúklinga með því að láta þá borga fyrir það að liggja hundveikir og fársjúkir á sjúkrahúsum og hann borgar fyrir það fyrir hönd okkar allra með því að skerða framlög til fæðingarorlofs. Þá er af sem áður var þegar Sjálfstæðisflokkurinn hreykti sér af því með nokkrum rétti að vera framarlega ef ekki jafnvel fremstur í fylkingu þeirra sem börðust fyrir því á sínum tíma og vísa ég þá til fyrrverandi forsætisráðherra Geirs Hilmars Haarde sem beitti sér mjög röggsamlega fyrir því.

Af því sem hér er að finna þegar ég renni yfir það í fljótu bragði sýnist mér að stjórnarliðið sé að leggja til hækkanir líkast til í 73 gjaldflokkum. Þegar allt er talið sýnist mér að þetta liggi fast að því að vera 75 gjaldflokkar sem er verið að hækka. Flestir þeirra eru þess eðlis að erfitt er að leggjast gegn því. Ég hef árum saman stutt frumvarp af þessu tagi og geri ekki ráð fyrir að ég breyti því neitt sérstaklega. Ég ætla ekki að berjast gegn því. Ég vil einfaldlega nota tækifærið til að benda á þann tvískinnung sem er í framkomu og máli hv. þingmanna stjórnarflokkanna, að undanteknum auðvitað nýliðunum en það er ástæðan fyrir því að hinir sem sitja hér frá fyrra kjörtímabili láta ekki sjá sig.

Herra forseti. Ég vil drepa á tvennt til viðbótar. Ég styð algerlega þá hækkun sem er á sóknargjöldum og framlögum til þjóðkirkjunnar. Ég tel að tími sé kominn til að leiðrétta hennar hlut. Með sama hætti er ég óskaplega dapur yfir þeirri skammsýni sem birtist í því að ætla að lækka framlög til nýsköpunarfyrirtækja. Ég minnist þess að hver þingmaður Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum kom upp í ræðustól þegar menn voru að undirbúa það frumvarp til þess að reka á eftir því. Ef ég man rétt greiddi hver einasti þingmaður atkvæði með því á sínum tíma. Það hefði verið hollt fyrir hæstv. fjármálaráðherra ef hann hefði verið viðstaddur ræðu sem núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hélt um miðbik september í umræðum um yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra í upphafi sumarþingsins.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lýsti því fögrum orðum hvernig fyrri ríkisstjórnir, hún hafði þær í fleirtölu svo öllu sé til haga haldið, hefðu búið að nýsköpun og sprotafyrirtækjum og sagði einfaldlega að þar hefði margt verið ákaflega vel gert. En hún gat þess líka að staðan væri því miður að þróast þannig í sprotageiranum að þar væri hvert fyrirtækið á fætur öðru að flytjast úr landi. Hún lýsti því yfir að hún hefði heimsótt 30 sprotafyrirtæki og hefði því miður orðið þess áskynja að mörg þeirra teldu hag sínum mun betur borgið erlendis. Vitaskuld er ekki hægt að rekja það til þessara eða ýmissa annarra niðurskurða sem eru að eiga sér stað. Fyrst og fremst er það auðvitað gjaldmiðillinn og gjaldeyrishöftin sem gera það að verkum að starfsumhverfi þeirra er ákaflega erfitt nú um stundir. Það er erfitt fyrir þau að fá til landsins fjárfestingar og menn halda sig frá landinu eða eins og maður sem situr í þessum sal sagði í mjög góðri ræðu, eða a.m.k. var partur þeirrar ræðu mjög góður, þegar hann lýsti því yfir að gjaldeyrishöftin væru eins og blikkandi skilti yfir Íslandi sem á stæði varúð. Og hver var það sem sagði það? Það gerði þessi glæsilegi hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum vikum, í sumar. Við þær aðstæður finnst mér ákaflega skaðlegt ef það er á einhvern hátt verið að skera á þá mjóu þræði sem þau fyrirtæki geta lesið sig eftir til tryggrar tilvistar. Þetta er eitt af því. Þetta var eitt af því sem að minnsta kosti hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sumir þingmenn Framsóknarflokksins töldu vera eitt hið allra besta sem ríkisstjórnin gerði á síðasta ári. Hvers vegna þá að koma hingað núna og skera á þá þræði? Það finnst mér erfitt að skilja.

Það er eins og hæstv. ríkisstjórn sé óafvitandi að slátra öllum kálfunum sem eiga að verða mjólkurkýr framtíðarinnar, því miður. Það er alveg sama hvert litið er á sviði sprotanýsköpunar og skapandi greina, það er eins og ríkisstjórnin hafi engan sérstakan áhuga á að vökva þær grasrætur. Það eina sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur lyft sem vítamíni, súrefni til framtíðar er svipað og ég gerði sem iðnaðarráðherra á sínum tíma, stóriðja. Mér finnst eins og ríkisstjórnin sé að leggja allt á það að einhvern tíma seinni part kjörtímabilsins náist það í höfn að landa álveri í Helguvík, en guð hjálpi okkur ef það tekst ekki. Því miður er ekkert eins og staðan er í dag, þrátt fyrir góðar yfirlýsingar hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, — og hér talar sá maður sem dró fjárfestingarsamninginn um Helguvík í gegnum þingið á sínum tíma í minnihlutastjórn — sem bendir til þess. Í öllu falli er ég þeirrar skoðunar að menn verða að hafa meiri framsýni en birtist í þessu. Menn verða að horfa lengra til framtíðar heldur en svo að láta í erfiðleikum augnabliksins höggið ríða á þessa veiku sprota.

Við höfum líka séð það á síðasta áratug, á síðustu 12–15 árum að sumir af þeim sprotum sem byrjuðu í bílskúrum, eins og nafni minn svo ég taki hann sem dæmi, eru að vaxa upp í það að verða mjög traustir og öflugir meiðir sem skila mörgum hálaunastörfum, hátæknistörfum til samfélagsins, skila miklum samfélagslegum arði og það er skammsýni hjá þeim flokkum sem kenna sig við grósku í atvinnulífinu að fara svona að þeim.

Þetta er það helsta sem ég finn að frumvarpinu en að öðru leyti óska ég hæstv. fjármálaráðherra og hans flokki til hamingju með hamskiptin sem birtast í því að hann leggur hér fram frumvarp sem hann barðist eins og ljón gegn tvisvar á ári síðustu fjögur árin. En batnandi manni er langbest að lifa.