143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkur atriði eftir þessa umræðu sem ég þakka fyrir. Ég vil fyrst nefna þar sem eldsneytisgjöldin hafa komið talsvert til umræðu í dag að þeim eru gerð sérstök skil í frumvarpi til fjárlaga, þ.e. í fyrri hluta fjárlagafrumvarpsins þar sem farið er yfir stefnu og horfur. Á bls. 60 og áfram er farið yfir það hvernig tekjur ríkissjóðs vegna eldsneytis- og umhverfisskatta hafa þróast undanfarin ár, sagan rakin og því lýst í tölum. Eins og vænta mátti hafa tekjur ríkisins meðal annars aukist talsvert af hverjum seldum lítra af bensíni af virðisaukaskattshlutanum og það grundvallast að sjálfsögðu á því að verðið á hvern lítra hefur verið að hækka og virðisaukaskatturinn leggst þannig á hærra útsöluverð. Því eru gerð góð skil og ég hvet áhugasama til að kynna sér það. Þarna má meðal annars lesa um það að fyrri ríkisstjórn lét ekki við það sitja að láta skattana fylgja verðlagi heldur var farið í sérstaka hækkun á bensíngjaldinu í tekjuöflunarskyni á sínum tíma sem var aftur ein helsta ástæða þess að við, á þeim tíma, lögðum til að horfið yrði frá þeirri stefnumörkun og annars staðar borið niður í tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Í því frumvarpi sem við ræðum í dag og öðrum tengdum fjárlagafrumvarpinu birtist sú forgangsröðun sem við hyggjumst leggja af stað með inn í þetta kjörtímabil og áhrifin af því að láta krónutölu, skatta og gjöld fylgja verðlagi eru tíunduð í frumvarpinu. Ég hef rakið það hér fyrir einstaka liði málsins í fyrri ræðu minni en það hefði haft um það bil öðrum hvorum megin við eina krónu til lækkunar, áhrifin af því að láta krónutölugjöld á eldsneyti ekki fylgja verðlagi. Það hefði haft um það bil einnar krónu áhrif öðrum hvorum megin við eina krónu á útsöluverði.

Það er síðan þannig með rannsóknirnar að haldið er áfram að styðja við framlög til þeirra með því að veita sérstaka ívilnun fyrir framlög í rannsóknir og þróun en rétt er að hlutfallið lækkar og það er ein af mörgum ráðstöfunum í frumvarpinu sem ekki er tekin af neinni léttúð, þetta er framlag til þeirra aðgerða sem samanlagt skila okkur réttum megin við núllið. Það er sannarlega ekki, ekki frekar en svo margt annað, hafið yfir gagnrýni en ég vil meina eftir sem áður að þrátt fyrir þá breytingu sé að finna nokkuð veglegan stuðning við rannsóknir og nýsköpun með 15% ívilnuninni.

Varðandi fæðingarorlofið verð ég að segja að mér finnst menn fara dálítið bratt í þá umræðu miðað við hvernig skilið var við þann málaflokk í lok síðasta kjörtímabils og hvernig fæðingarorlofsmálin höfðu þróast í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var sá málaflokkur sem fékk á sig hvað harðastar skerðingar síðustu fjögur árin en á árinu 2009 höfðu framlög til fæðingarorlofsmála numið um það bil 13 milljörðum og þau voru tekin niður í rúma 7 milljarða á árinu 2012, niðurskurður upp á um 6 milljarða, 5,8 milljarða lækkun á framlögum til Fæðingarorlofssjóðs svo ég sé aðeins nákvæmari.

Síðan gerist það alveg undir blálokin á kjörtímabilinu að menn kynna til sögunnar stórkostleg áform um að bæta upp fyrir þær syndir sem áður höfðu verið drýgðar í þeim efnum þar sem mánaðarlega framlagið hafði, ekki bara einu sinni heldur oftar verið lækkað og þannig hafði það eitt og sér lækkað úr 535.700 kr. niður í 300 þús. kr. Þær 300 þús. kr. stóðu síðan í 350 þús. kr. í lok kjörtímabilsins. En áformin sem kynnt voru undir lok kjörtímabilsins voru þau að fara aftur, ekki bara í níu mánuði eins og áður hafði verið heldur upp í 12 mánaða fæðingarorlof en á þeim tíma, ég tek það fram, voru menn að reka ríkissjóð með tuga milljarða halla. Nei, það átti að fara upp í 12 mánaða fæðingarorlof og svo fylgdi almenn yfirlýsing um að fjárhæðarmörkin sem höfðu lækkað úr 535 þús. kr. niður í 350 þús. kr. eins og þetta stóð þá, yrðu líka lagfærð með tíð og tíma.

Þetta þýddi að menn sáu fyrir sér aukin útgjöld á þessum erfiðu tímum í ríkisfjármálunum til Fæðingarorlofssjóðs, ekki bara þannig að við verðum komin aftur í 13 milljarða eins og verið hafði á árinu 2009 heldur upp í 16 milljarða á ári. Þannig átti að auka framlögin í Fæðingarorlofssjóðinn um 100% á sama tíma og ríkissjóður var rekinn með tuga milljarða halla. Og sá hluti málsins sem tengdist hækkun á fjárhæðarmörkunum í mánaðarlegri fæðingarorlofsgreiðslu var fyrir utan það algerlega ófjármagnaður. Þær hugmyndir samræmdust á engan hátt langtímastefnumörkun í ríkisfjármálum eins og kom fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar við málið á sínum tíma en þar sagði einfaldlega: Þetta er eitthvað sem við höfðum ekki gert ráð fyrir og við væntum þess að það finnist einhver leið til að fjármagna það. Hvorugt hafði þó í raun og veru verið fjármagnað þegar ný ríkisstjórn tók við, hvorki áformin um að lengja fæðingarorlofið né heldur þau almennu orð, sem sannarlega höfðu hvergi verið bundin í lög, um að endurheimta fyrri hámarksfjárhæðarþök. Af þeirri ástæðu var mér það ljóst tiltölulega snemma í vinnu við fjárlagagerðina að hér þurfti eitthvað að staldra við og endurskoða þær hugmyndir.

Mín niðurstaða varð sú að við værum einfaldlega ekki í færum í dag með ríkissjóð algerlega í járnum til að lofa 12 mánaða fæðingarorlofi, þ.e. umtalsverðri lengingu fæðingarorlofs frá því sem best lét áður, við værum ekki í færum til að gera það. Þá stóð valið í raun og veru milli þess að lengja fæðingarorlofið eitthvað eða einbeita sér að fjárhæðarmörkunum. Í ljósi þess að þróunin undanfarin ár hefur fyrst og fremst orðið til þess að það eru færri og færri feður sem taka fæðingarorlof einbeittum við okkur að fjárhæðarmörkunum. Þetta er engin stórkostleg hækkun en hún er þó 20 þús. kr. á mánuði þannig að viðmiðunarfjárhæðin verður 370 þús. kr. Það er umtalsverð hækkun frá því sem þetta fór lægst í, 300 þús. kr., en ekki nema 20 þús. kr. hækkun upp úr 350 þús. kr.

Ég skil í sjálfu sér mjög vel að mönnum þyki þetta eiga að gerast seint en ég vísa þá aftur til þess að við viljum taka skref sem eru raunhæf og ábyrg og við ætlum ekki að fórna því markmiði að hætta skuldasöfnuninni með því að fara lengra í þeim efnum en staða ríkissjóðs býður upp á í dag.

Hv. þm. Kristján L. Möller hefur farið ágætlega yfir áhrifin á kaupmátt og ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem ég hef áður tekið fram um þau mál, að heildaráhrifin séu metin jákvæð á þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna. Það er eflaust svo að hægt er að finna einhverja þá sem komast ekki best frá frumvarpinu og segja sem svo: Hér hef ég fundið einstakling sem er með lágar tekjur, hefur verið í skóla o.s.frv. og hann nýtur ekki meðalhækkunarinnar á kaupmætti þessara ráðstöfunartekna. En þannig er það einfaldlega alltaf, þetta eru meðaltalstölur sem ég er að leggja til grundvallar í umræðunni. Sá hluti skulda heimilanna sem er verðtryggður hækkar þá eins og frumvarpið gerir ráð fyrir um 0,2–0,3%, ég er ekki með milljarðatöluna á það á reiðum höndum fyrir hv. þingmann. Spurt er hvort tryggingagjaldið gæti ekki lækkað frekar og ég get svarað því þannig að við erum að kynna fyrsta skrefið í lækkun tryggingagjaldsins sem fylgt verður eftir á árinu 2015 og 2016 og þá mun tryggingagjaldið hafa lækkað, eins og fram hefur komið, um 0,34%, sem er talsvert hlutfall af 7,34%.

Mætti það vera lægra? Já, það var fyrir neðan 6% fyrir ekki svo löngu síðan. Það mundi sannarlega vera aðgerð sem kæmi sér vel fyrir vinnuaflsfrek fyrirtæki í landinu en hvert prósent í tryggingagjaldinu kostar, ef við horfum bara á beinu áhrifin, eins og fram hefur komið um 10 milljarða þannig að það er ekki mikið svigrúm þegar við erum að leggja fram hallalaus fjárlög til að ganga mikið lengra að sinni. Ég vonast hins vegar til þess — og það er ekki uppi neitt leikrit í því eins og hv. þm. Kristján L. Möller kom aðeins inn á, hvort við værum að gefa til kynna að það væri eitthvað meira sem við gætum slakað út síðar, við erum ekki að spila neinn slíkan leik með þessum áformum — að menn kunni að meta að það liggi þá fyrir áform núna þrjú ár fram í tímann um það hvernig það gjald mun lækka en það mun skila sér í 3,8 milljarða lækkun gjaldsins fyrir atvinnulífið heilt yfir. Það veldur því að það eru öll fyrirtækin í landinu fyrir utan stóru fjármálafyrirtækin sem upplifa lækkun opinberra gjalda vegna þessa.

Hér hefur verið rætt nokkuð um legugjaldið. Ég hef fyrr í dag í andsvari nefnt að það er sjálfsagt að ræða slíkar ráðstafanir sem ekki skila sér beint í tekjum eins og hver annar skattur fyrir ríkið heldur sem gjald til að efla sértekjur sjúkrahúsanna. Menn býsnast yfir því. Þeir hafa komið hingað margir hv. þingmenn í dag og sagt að það sé mikil svívirða að láta sér detta í hug að taka gjald af þeim sem veikastir eru og verst hafa það.

Það er þannig í fyrsta lagi að ekki er sjálfgefið að þeir sem þurfa á slíkri innlögn að halda séu endilega um leið þeir sem verst hafa það í samfélaginu. Við þekkjum það öll ágætlega úr eigin reynsluheimi að það er ekkert spurt að því hvar maður er staddur í tekjuhópunum þegar veikindi knýja dyra og alls ekki sjálfgefið að gjaldið leggist þyngra á þá sem minni hafa ráðstöfunartekjurnar en hina, þvert á móti. Það er engin ástæða til að ætla að það séu eingöngu þeir sem eru í lægsta tekjuhópnum sem mundu fá þetta gjald á sig. Hins vegar tek ég eftir því að enginn þeirra sem blandar sér í þá umræðu minnist neitt á þá miklu gjaldtöku sem á sér stað jafnvel þótt menn leggist ekki inn og þar getur verið um verulega veikt fólk að ræða, jafnvel fólk sem hefur verið veikt löngum stundum. Ég hugsa bara þar sem ég stend hérna til vinkonu minnar sem liggur núna heima hjá sér og hefur gert í sex vikur, frá vinnu, rúmföst viku eftir viku og horfir ekkert til þess að komast á fætur á næstunni. Hún hefur þurft að bera sinn kostnað, læknakostnað, lyfjakostnað og annan kostnað og 1.200 kr. gjald þegar lagst er inn á sjúkrahús bætist sannarlega við annan kostnað, það er engin fjöður dregin yfir það. Hins vegar stendur slíkt gjald tæplega fyrir matarkostnaði. Ef við hefðum kallað gjaldið matargjald hefði enginn efast um að það hefði kannski, og í besta falli, dugað fyrir morgunmat, hádegismat, einhverju með kaffinu og kvöldmat. Ætli fólk hefði þá fjargviðrast jafn mikið yfir gjaldinu? Eða erum við jafnvel líka ósammála um að eðlilegt sé að eitthvert slíkt gjald sé tekið vegna þeirrar þjónustu sem menn njóta, þó ekki væri nema í mat, á meðan menn koma inn á sjúkrahúsin?