143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina.

Þessi mál eru núna til meðferðar hjá hv. fjárlaganefnd. Ég varð afar glaður þegar ég heyrði hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir að það væri ekki allt heilagt sem stæði í fjárlagafrumvarpinu, eins og maður upplifði stundum á síðasta kjörtímabili, heldur væru þetta tillögur sem væru til skoðunar og umfjöllunar. Ég get sagt það fyrir mína parta að við munum að sjálfsögðu reyna að tryggja flugleiðir og að flogið verði áfram á hina svokölluðu óarðbæru staði sem hv. þingmaður lýsti hér áðan.

Varðandi niðurskurðinn hjá Isavia deili ég áhyggjum hv. þingmanns en ég hef þær upplýsingar að verið sé að leita leiða til þess að færa fjármagn af hagnaði Isavia vegna millilandaflugsins yfir í innanlandsflugið. Áhöld eru um hvort það sé löglegt en við höfum dæmi frá Noregi þar sem þetta hefur verið gert með ágætisárangri. Ég veit að sú vinna stendur yfir og vona að þetta verði tryggt.

Ég vil svo segja: Allir þeir staðir sem nefndir voru í umræðunni eru hluti af þjóðvegakerfinu. Þjóðvegakerfið heyrir undir Vegagerðina, það heyrir undir skipulagsvald ríkisins. Sama á við um Reykjavíkurflugvöll og jafnvel aðra flugvelli sem tilheyra og snúa að millilandafluginu. Ég vil bara taka það fram sérstaklega í þessari umræðu að mér finnst eins og með þjóðvegakerfið að skipulagsvaldið eigi, sérstaklega varðandi Reykjavíkurflugvöll, að heyra undir (Forseti hringir.) Alþingi og ríkið.