143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum þá grafalvarlegu stöðu sem komin er upp á þessu hátæknisjúkrahúsi allra landsmanna. Ég vil undirstrika það að málefni Landspítalans skipta alla landsmenn máli því að hann þjónustar allt landið og allir vilja að sjálfsögðu fá sem besta læknismeðferð þegar alvarlegir sjúkdómar eða slys eru annars vegar. Þar er Landspítalinn – háskólasjúkrahús fremstur í flokki.

Mér finnst því miður oft sem verið sé að stilla hagsmunum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni gegn uppbyggingu Landspítalans sem býr nú við mikil þrengsli og víða ekki við mannsæmandi húsakost dreifðan úti um alla borg eins og komið hefur hér fram. Það er óhagræði að reka spítalann á 17 stöðum í 100 byggingum. Þetta kostar spítalann um 3 milljarða á ári. Heilbrigðisstarfsfólkið hefur sýnt mikið langlundargeð í gegnum tíðina við erfiðar aðstæður því að niðurskurður hefur verið í heilbrigðiskerfinu til fjölda ára og þegar hrunið varð var staða Landspítalans mjög erfið. Á liðnum árum hefur heilbrigðisstarfsfólk tekið á með stjórnvöldum við það erfiða verkefni að hagræða með það markmið að ljósið væri fram undan og að uppbygging Landspítalans hæfist á þessu ári.

Fjárlagafrumvarpið sem allir stjórnarliðar virðast sverja af sér sýnir stöðnun og afturför í heilbrigðismálum. Gagnvart þessari mikilvægustu heilbrigðisstofnun landsmanna er það ekki boðlegt að halda stofnuninni, starfsfólki og sjúklingum í algjörri óvissu um framhaldið. Við eigum því að hlusta á forstjóra og starfsfólk Landspítalans sem tala um hvernig bregðast megi við þeirri alvarlegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir að óbreyttu, ganga óhikað áfram með þau áform sem fyrri stjórnvöld höfðu markað með uppbyggingu nýs Landspítala og forgangsraða þannig í þágu allra landsmanna.