143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki mikið þarna sem ég er ósammála, reyndar ekki neitt sem ég tók eftir sérstaklega. Til þess að vera aðeins vægari á því sem virðist sjálfsagt vera svartsýni vil ég bjóða smávon. Þegar ég byrjaði að taka þátt í starfi Pírata um mitt seinasta ár hvarflaði ekki að mér eina sekúndu að við mundum vinna. Ég gerði það samt vegna þess að ég trúi á bjartsýni, ég trúi á von. Ég hef fulla trú á því að þegar maður starir inn í svartnættið eigi maður samt að halda áfram með þá litlu von sem maður hefur. Stundum tekst það, ekki alltaf. Ég er sammála þar, við þurfum bjartsýni, við þurfum von. Ég tel okkur hafa hvort tveggja. Þá þurfum við líka að geta starað út í svartnættið þegar svo ber undir.

Það er eiginlega ekkert sem ég er mótfallinn. Ég er hlynntur þessari tillögu. Ég er hlynntur því að ríkið fari í þá vinnu að reyna að finna út úr því hvernig í ósköpunum þessi króna eigi að ganga hérna vegna þess að klárlega gengur hún ekki með klassískum kenningum, svo mikið er víst.

Ég þakka fyrir umræðuna og vona að ég geti tekið þátt í því að bæta umræðumenninguna hér, þá væntanlega í samráði við Bjarta framtíð.