143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

fæðingarorlofssjóður.

[10:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það sem snýr að félags- og húsnæðismálaráðherra er útgjaldahliðin hvað varðar Fæðingarorlofssjóð. Hins vegar er ákvörðun og þær tillögur sem koma fram varðandi tryggingagjaldið á vegum hæstv. fjármálaráðherra.

Það er rétt sem þingmaðurinn segir hér, í upphafi ársins 2012 var bundið eigið fé Fæðingarorlofssjóðs 2.316 milljónir. Áætlaðar tekjur af tryggingagjaldi 2013 voru rúmir 12 milljarðar og áætluð útgjöld á þessu ári voru um 8 milljarðar þannig að bundið eigið fé sjóðsins ætti þá að standa núna í lok árs í 6,5 milljörðum og miðað við þær upplýsingar sem ég hef virðist þetta standast nokkurn veginn. Það er verið að lækka tryggingagjaldið eða þann hluta af því sem er eyrnamerktur fæðingarorlofinu þannig að gert er ráð fyrir, samkvæmt núverandi fjárlagafrumvarpi, að tekjur sem fara inn í Fæðingarorlofssjóðinn verði 6,4 milljarðar. Útgjöldin hins vegar 2014 — ég verð að vera ósammála hv. þingmanni um smávægilega hækkun. Við erum að tala um það að á rúmu ári er búið að hækka þakið um 23% (Gripið fram í.) og það munar um það. Útgjöldin á næsta ári eru áætluð 8,3 milljarðar þannig að bundið eigið fé sjóðsins verði 4,6 milljarðar í árslok 2014.

Frumvarpið er núna í höndum Alþingis, bæði tekjuhliðin og fjárlagafrumvarpið. Framtíðarsýn mín og áhersla varðandi fæðingarorlofið kemur mjög skýrt fram í markmiðum laganna, sú að börn fái að njóta umgengni við báða foreldra og að það stuðli að jafnrétti á vinnumarkaði. Ég tel að þær aðgerðir sem hér er verið að grípa til með því að leggja áherslu á það að taka skerðingarnar til baka vinni einmitt að markmiði laganna.