143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:12]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar sveitarfélögin, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, unnu í lóðum sínum hefði eflaust mátt hafa miklu meira samráð um skipulagsmál og úthlutun lóða. En engu að síður var búið að selja hverja einustu lóð. Fullt af fólki hafði hug á að koma sér þaki yfir höfuðið og síðan kom hrun. Þá lentu sveitarfélögin í því að lóðunum var skilað og fólk sat fast í íbúðum sínum. Sveitarfélögin notuðu ekki fé beint út úr sveitarsjóði til þess að vinna í lóðunum. Þau notuðu í það peninga sem fólk var búið að borga til að láta framkvæma á þessum lóðum, líka til að byggja skólana og leikskólana sem fylgja hverfunum.