143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Það er mjög gott að fá hana fram einfaldlega vegna þess að fyrirspyrjandi þekkir mjög vel til í Hafnarfirði innan bæjarstjórnar. Það er gott að fá tækifæri til að upplýsa það hér að ég hef fundað með bæjarstjóra Hafnarfjarðar og svarað því erindi sem kom fram í bréfi til ráðuneytisins, að vísu á fyrra kjörtímabili. Það bréf var dagsett 14. mars 2013, en við verðum að hafa það á hreinu í þessum efnum að með bréfi dags. 3. desember 2010 ákvað þáverandi velferðarráðherra að St. Jósefsspítali yrði sameinaður Landspítala. Sú sameining gekk í gildi 1. febrúar 2011. Í framhaldi af þeirri ákvörðun fyrri stjórnvalda ákvað Landspítalinn í hagræðingarskyni að loka St. Jósefsspítala vegna krafna um aðhald í rekstri og var spítalanum lokað endanlega 1. desember 2011. Ef mig misminnir ekki var í fjárlögum fyrir það ár, 2011, sett heimild til stjórnvalda til að selja húseignirnar.

Allt frá þeim tíma hafa ýmsir möguleikar verið skoðaðir til að nýta byggingarnar, m.a. var skoðað hvort nýta mætti hluta þeirra sem hjúkrunarheimili. Það reyndist ekki unnt þar sem húsaskipan gerði slíkan rekstur afar óhentugan. Einnig var kannað með hugsanlega notkun fyrir aðrar stofnanir á vegum velferðarráðuneytisins, en þær sömu athuganir leiddu í ljós að þessi gamla bygging hentaði ekki og bætti ekki stöðu húsnæðismála hjá þeim stofnunum sem verið var að skoða hvort kæmust þarna fyrir.

Hafnar voru viðræður við Hafnarfjarðarbæ sem skoðaði ýmsa möguleika á nýtingu. Í því bréfi sem ég vitnaði til frá bæjarstjóra Hafnarfjarðar til velferðarráðuneytisins frá mars 2013 kom fram að áhersla væri lögð á að Hafnarfjörður fengi St. Jósefsspítala og tilheyrandi skipulagssvæði í næsta nágrenni til sinna umráða án endurgjalds. Suðurgata 44 verði jafnframt rifin á kostnað ríkisins.

Til þess að hafa hlutina á hreinu er fasteignamatið á Suðurgötu 41, 377 milljónir og fasteignamatið á Suðurgötu 44, 93 milljónir, þannig að við erum að tala um verulega fjármuni. Velferðarráðherra á þeim tíma og ekki heldur heilbrigðisráðherra í dag hefur ekki neinar heimildir til að afhenda slíkar eignir, hvorki til Hafnarfjarðarbæjar né annarra sveitarfélaga eða stjórnvalda. Það þarf heimild á fjárlögum til slíks.

Ég hef greint bæjarstjóra Hafnarfjarðar frá því að ég hef sem ráðherra enga heimild til að afhenda þessar eignir á þeim forsendum sem þarna komu fram. Því var einungis hægt að hafna því erindi.

Ég vil undirstrika að allir, allt frá því þessi ákvörðun var tekin til dagsins í dag, innan vébanda ráðuneytisins hafa lagt sig fram um að reyna sitt til að finna lausn á þessu, því eins og kom fram í máli málshefjanda er í ljósi sögunnar þessu húsi ekki sómi sýndur. Það er undir umsjón eignaumsýslu ríkisins. Þegar spítalanum var lokað í febrúar 2011 var lyklunum einfaldlega skilað til eignaumsýslunnar frá ráðuneytinu. Við höfum hins vegar lýst því yfir að við erum öll af vilja gerð til að reyna að koma fyrir einhverri starfsemi þarna. Það eru ýmsar leiðir í þeim efnum sem við höfum verið að skoða. Þegar um er að ræða stofnanir sem verið er að færa til eða koma fyrir annars staðar gerum við fyrirspurnir um þetta. Það er örugglega hugsanlegur möguleiki að koma þessu út í einhverja leigu. Það kann vel að vera að heimildin sem var sett inn í fjárlögin 2011 um sölu á húsnæðinu geti líka skilað okkur því að húsið komist í önnur not o.s.frv.

Meginatriðið er það sem hér var spurt um af hv. málshefjanda hvort þarna verði rekinn spítali. Ég held ég geti svarað því afdráttarlaust neitandi. Allir þingmenn hér inni þekkja hvernig komið er fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins í stöðunni í dag. Ég held að ég geti alveg fullyrt að ég hafi ekki nokkurt einasta svigrúm á fjárlögum ársins 2013, ekki miðað við frumvarpið 2014, að opna nýjan spítala í fyrrverandi St. Jósefsspítala.

Þetta er staða máls. Það er verið að reyna að leita allra leiða til að sýna sögu spítalans og þeirri starfsemi sem þar fór fram fulla virðingu. Það tekur tíma, því miður.