143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Alþýðulýðveldisins Kína hins vegar.

Samningaviðræður um fríverslunarsamning milli Íslands og Kína hófust árið 2007. Eiginlegar viðræður lágu niðri frá árinu 2008 allt fram til síðasta árs þegar sammælst var um að leiða þær til lykta. Viðræðum lauk snemma á þessu ári og samningurinn var undirritaður í Peking 15. apríl síðastliðinn.

Fríverslunarviðræðurnar voru samstarfsverkefni sem utanríkisráðuneytið leiddi en að ferlinu komu sérfræðingar annarra ráðuneyta og undirstofnana. Ítarlegt samráð var haft við utanríkismálanefnd meðan á viðræðunum stóð eins og ég get sjálfur vottað um sem fyrrverandi fulltrúi í nefndinni.

Þá var einnig haft samráð við aðila vinnumarkaðarins og fyrirtæki sem stunda viðskipti við Kína eða hafa hug á því. Jafnframt setti utanríkisráðuneytið upp sérstakan upplýsingavef um fríverslunarviðræðurnar og samninginn. Ég vil nota þetta tækifæri hér og hrósa forvera mínum, Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrir hans þátt í þessu sem og öllu starfsfólki utanríkisþjónustunnar og öðrum þeim aðilum sem komu að samningagerðinni.

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína er viðbót við þéttriðið net fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert við ríki um allan heim. Flestir samninganna hafa verið gerðir með samstarfsríkjum okkar innan Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Fríverslunarsamningur þessi er einmitt byggður upp með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar.

Samningurinn kveður á um niðurfellingu tolla af öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga, í flestum tilvikum frá gildistöku samningsins.

Samningurinn nær einnig til þjónustuviðskipta. Skuldbindingar Íslands eru í samræmi við það sem gert hefur verið í öðrum samningum og rúmast innan gildandi laga og reglna á Íslandi. Í fríverslunarsamningum er aldrei samið um frjálsa för fólks í anda EES-samningsins. Þá undanskilur samningurinn alfarið opinbera þjónustu, heilbrigðis- og menntunarþjónustu.

Fríverslunarsamningurinn hefur engar breytingar í för með sér varðandi heimildir Kínverja til að fjárfesta á Íslandi. Samningur ríkjanna frá 1994 um vernd fjárfestinga heldur gildi sínu og er til hans vísað í samningnum en hann felur ekki í sér sjálfstæða heimild til fjárfestinga.

Sérstakur kafli er um hugverkaréttindi og í kafla um samstarf milli ríkjanna er áréttað að það nái til fleiri þátta en viðskipta. Er þar vísað í fjölbreytt samstarf sem nú þegar er til staðar og látin í ljós ósk um að það verði aukið, m.a. á sviði jafnréttismála, vísinda, mennta, menningar og orkumála. Samningurinn kveður einnig á um að ríkin skuli auka samstarf sitt á sviði umhverfisverndar og vinnumála, sem og þróunarmála. Með samningnum er settur á stofn vettvangur þar sem embættismenn ríkjanna fjalla um framkvæmd samningsins, t.d. einstök vandamál sem fyrirtæki upplifa í viðskiptum.

Viðskipti milli Íslands og Kína hafa aukist á undanförnum árum, ekki síst útflutningur á íslenskum vörum til Kína. Kína er því vaxandi markaður fyrir íslensk fyrirtæki og vonir standa til þess að fríverslunarsamningurinn muni efla enn frekar viðskipti milli landanna tveggja jafnframt því sem honum er ætlað að skapa ramma utan um aukna samvinnu milli landanna á ýmsum öðrum sviðum.

Í tilefni af undirritun fríverslunarsamningsins gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega sérstaka yfirlýsingu um reglubundið pólitískt samráð. Samkvæmt henni er reglubundið samráð ríkjanna um pólitískt málefni formfest þar sem m.a. verður fjallað um mannréttindamál, jafnréttismál, vinnumál, málefni norðurslóða sem og samvinnu ríkjanna á sviði jarðvarma, menningarmála, menntamála og ferðaþjónustu. Jafnframt er nú unnið af hálfu velferðarráðuneytis, þ.e. félags- og húsnæðismálaráðherra, að gerð sérstaks samkomulags við Kína á sviði vinnumála. Það samkomulag mun gefa færi á beinum milliliðalausum samningsskiptum við Kína um þetta málefni er varðar grundvallarréttindi launafólks á vinnumarkaði. Vonir standa til að gerð þessa samkomulags muni ljúka fljótlega.

Við í utanríkisráðuneytinu finnum fyrir miklum áhuga á fríverslunarsamningi Íslands og Kína, bæði meðal út- og innflytjenda á vörum. Það er von mín að Alþingi geti fjallað um þetta mál og afgreitt örugglega svo hann geti tekið gildi frá og með 1. janúar 2014.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.