143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á skýrslunni Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar sem fjallað er um á forsíðu Fréttablaðsins í dag undir yfirskriftinni „Karlar í lögreglunni vantreysta konunum“. Skýrslan er afurð rannsóknar sem Finnborg Salome Steinþórsdóttir vann við Háskóla Íslands í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra.

Staða kvenna innan lögreglunnar var kortlögð með gögnum frá lögregluembættum og spurningalisti lagður fyrir alla lögreglumenn í maí síðastliðnum sem og viðtöl tekin við fyrrverandi lögreglukonur. Niðurstöður skýrslunnar eru hreint út sagt sláandi og lýsa ömurlegum veruleika lögreglukvenna.

Rúmur þriðjungur lögreglukvenna segir að á sér hafi verið brotið með kynferðislegri áreitni af karlkyns yfirmanni eða karlkyns samstarfsmönnum. Rúmur þriðjungur lögreglukvenna. Þetta voru ekki glæpamenn eða aðrir skjólstæðingar, nei, þetta voru vinnufélagarnir.

Brottfall kvenna úr stéttinni er mikið. Nær engar konur eru í efstu starfsstigum lögreglunnar og hefur óánægja gagnvart framgangi í starfi aukist mikið á síðustu árum. Viðhorf til kvenna innan starfsliðsins eru neikvæð hjá lögreglumönnum. Þau eru neikvæðust í yngsta aldurshópi lögreglumanna, hjá körlum á aldrinum 20–29 ára. Yfirmenn eru gagnrýndir í skýrslunni og maður hlýtur að spyrja sig hvort þeir læri það sem fyrir þeim er haft eða hafi verið valdir vegna íhaldssamra viðhorfa sinna. Ég veit ekki hvort er verra, herra forseti.

Fram kemur á vef lögreglunnar að til standi að vinna með niðurstöður þessarar skýrslu. Ríkisstjórnin hefur sýnt starfi lögreglunnar áhuga og því hvet ég hana til að vinna að því að breyta ferlum og skipulagi innan embættisins svo snúa megi þessari ömurlegu þróun við.