143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er mér sönn ánægja að taka þátt í þeirri miklu gleðibylgu sem hér ríður um þingsalinn og lýsi yfir mikilli ánægju með þær ræður sem hér hafa verið fluttar, jákvæðar og skemmtilegar. Auðvitað er ánægjulegt að heyra að menn hafi áhuga á því að vinna fjárlögin vel og hugsanlega ná samstöðu um þau.

Við stefnum að því, og hljótum þá að gera það öll saman, að hallalaus fjárlög verði staðreynd, að við hættum að safna skuldum, byrjum frekar að greiða niður skuldir og aukum þar með tækifæri okkar allra Íslendinga, sem og þeirra sem hér munu byggja landið til framtíðar, til að auka lífsgæði okkar. Það er stóra verkefnið okkar allra. Ég fagna því þeim áhuga sem hv. þingmenn úr stjórnarandstöðunni hafa á því að lesa skýrslur og plögg sem miða að því að hagræða í ríkisrekstrinum.

Síðustu árin hefur ekki gengið nógu vel að koma rekstrinum á réttan kjöl. Ég vonast svo sannarlega til þess að fjárlögin í ár verði sá snúningspunktur sem vissulega er þörf á í okkar samfélagi með það stóra og góða markmið að ná tökum á ríkisrekstrinum, hætta skuldasöfnun og sjá fram á það að við byrjum að greiða niður skuldir.