143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig skortir sjálfan fagþekkingu til þess að hafa jafn skynsamlegar skoðanir á álitaefnunum og hv. þingmaður augljóslega hefur.

Ég spurði ráðherrann áðan hvort hún teldi líklegt að þetta mál þyrfti að koma aftur inn að 12 mánuðum liðnum og verða þá framlengt aftur. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hv. þingmann um hans mat í því efni, hvort hann telji nóg að framlengja þetta til eins árs eða hvort það ætti að gera til lengri tíma svo það komi ekki hér inn á hverju ári.

Hins vegar spurði ég ráðherrann, og hún hafði sennilega ekki tíma eða tækifæri í stuttum andsvörum til að fjalla um það: Hversu langur tími líður nú orðið frá því að menn fái mál sín tekin fyrir í héraði? Hvers mega menn vænta í því hve langan tíma það getur tekið að fá úrskurð héraðsdóms í máli sem þeir hafa sett fram? Hver er staða venjulegs Íslendings sem þarf að leita til héraðsdóms eins og málum er nú háttað í því efni?

Finnst hv. þingmanni það viðunandi biðtími, bæði eftir því að mál séu tekin fyrir og eftir úrlausnum í héraði, eins og það er núna eða þyrftum við að gera enn betur í því að efla héraðsdóminn en hér er gert ráð fyrir?