143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Margt af því sem hér var nefnt af hv. þingmanni hefur þegar komið fram og þess vegna ætla ég ekki að lengja umræðuna með því. Það hefur líka komið fram í umræðunni að þingmenn hafa ákveðnar — við skulum ekki kalla það áhyggjur, vangaveltur um sjálfstæði stofnunarinnar og frumkvæði hennar og heimildir til slíks, að þær verði minni við sameiningu en þær voru fyrir. Þá minni ég á að í lögunum um Neytendastofu eru ákveðnar heimildir til slíks. Ég ítreka að telji allsherjar- og menntamálanefnd ástæðu til þess að skerpa á því þá er ekkert því til fyrirstöðu. Markmið okkar er einungis, og það er mjög skýrt í þeirri vegferð sem við erum hér að tryggja, að skýrar verði á höndum hvers þessi verkefni eru. Við erum að reyna að stíga, eins og nefnt var hér áðan af hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, fyrsta skrefið í átt til þess að bæta stöðu neytendamála á Íslandi. Ég ítreka að ég treysti hv. allsherjar- og menntamálanefnd vel til að fara yfir það í nefndinni vilji menn skerpa á einstaka þáttum.