143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

samningar við erlenda kröfuhafa.

[10:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að þetta sé ákaflega alvarlegt mál og mikilvægt að menn tali skýrt. Ég skal því endurorða spurninguna: Er það af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra skilyrði fyrir því að undanþága verði veitt til þrotabúanna að í tillögum þeirra felist svigrúm sem nægir til þess að lækka verðtryggð lán heimilanna um 15–20%, sem nemur verðbólguskotinu hér á árunum fyrir hrun, án þess að það leiði til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs? Má fólk vænta tillagna ríkisstjórnarinnar — ef ekki núna fyrir jól þá hvenær og snúast þær um að lækka verðtryggð lán íslenskra heimila um 15–20% eða er ríkisstjórnin með eitthvað allt annað á borðinu?

Það er mikilvægt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tali skýrt í þessu efni því að það varðar fjármál tugþúsunda heimila í landinu.