143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

varðveisla handritanna í Þjóðmenningarhúsinu.

[10:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hafa handrit Árna Magnússonar verið töluvert til umfjöllunar og nú síðast í morgunútvarpinu í morgun. Tilefnið er að ekki er tryggð fjárveiting til fullnægjandi öryggisgæslu vegna handritanna í Þjóðmenningarhúsinu en sólarhringsgæsla var skilyrði fyrir því að Árnastofnun gæti sett upp sýningu á handritunum góðu.

Í nóvember fögnum við því að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar og í tilefni af afmælisárinu hefur verið efnt til sex sýninga víðs vegar um landið. Haldin var ráðstefna hér á dögunum sem vitnað hefur verið til í þessum ræðustól, fræðsluverkefni hafa verið sett á laggirnar og gefnar út bækur og handritakort. Nú á að blása í lúðra og halda afmælishátíð þann 13. nóvember en það blasir við að ekki verður hægt að hafa handritin til sýnis á afmælishátíðinni.

Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að leggja ekki fjármuni í að hefja framkvæmdir við byggingu Húss íslenskra fræða sem hýsa átti safnið á komandi árum og þau því vegalaus vegna óvissu um framhaldið. Í morgun kallaði Svanhildur Óskarsdóttir, dósent við Árnastofnun, eftir því hvernig ríkisstjórnin hyggst sinna þeim málum til framtíðar. Hún telur óverjandi að við sýnum þessum merka arfi ekki meiri virðingu. Því hefur verið líkt við það að afmælisbarnið sé ekki í veislunni eða búið sé að blása á kertin þegar veislan byrjar og gestirnir mæta.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort tryggja eigi að handritin geti verið í Þjóðmenningarhúsinu þangað til aðrar úrlausnir finnast og um leið hvort til er einhver framtíðaráætlun, hvort hann hyggist leggja fram einhver plön varðandi byggingu Húss íslenskra fræða á komandi árum.