143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þegar hér urðu þrengingar í ríkisfjármálum, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þekkir ágætlega, þurfti að draga úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs. Ég held að það sé einmitt mjög vel við hæfi, og þakka raunar fyrir það, að hv. þingmaður hafi hafið þessa umræðu hér í þinginu. Ég tel einmitt mjög brýnt að ræða það sem gert hefur verið hvað snýr að fæðingarorlofi hér á landi.

Hámarksgreiðslur hafa verið lækkaðar umtalsvert. Fyrst var farið í þetta í byrjun janúar 2009 þegar hámarksgreiðslur voru lækkaðar í 400 þús. kr. á mánuði úr 535 þús. kr. Síðan var aftur farið í að lækka þær 1. júlí 2009 og þá var miðað við að meðalmánaðartekjur foreldra yrðu að hámarki, sem sagt greiðsluþakið, 350 þús. kr. Svo var aftur lækkað 1. janúar 2010 með því að hámarksgreiðsla var ákveðin 300 þús. kr. Síðan var gripið til ákveðinna aðgerða sem sneru að skiptingu á hlutfalli tekna þannig að foreldrar ættu rétt á greiðslum sem nema 80% af fyrstu 200 þús. kr. af tekjum en 75% af þeim tekjum sem fara umfram þá fjárhæð, en samt alltaf upp að þessu þaki sem væri þá 300 þús. kr.

Nú hafa nokkur skref verið stigin til að taka þessa skerðingu til baka. Ég tel mjög brýnt varðandi fæðingarorlofið að við horfum til þess hver markmiðin með lögunum um fæðingar- og foreldraorlof voru. Þau voru byltingarkennd þegar þau voru samþykkt á Alþingi. Þau voru svo byltingarkennd að við sjáum ekki, í því umhverfi sem við berum okkur yfirleitt saman við, sambærilegar lagabreytingar eða að menn hafi verið tilbúnir að stíga jafn stór skref og við stigum í að tryggja að börn ættu að njóta umgengni við báða foreldra sína, en þetta væri líka lykilþáttur í að tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Með lögum sem voru samþykkt á árinu 2000 var verið að tryggja réttindi feðra til fæðingarorlofs og lengja það jafnframt í þrjá mánuði, auk þess sem ekki var hægt að framselja þennan hluta til móður, eins og við þekkjum ágætlega, einnig vorum við með þessa þrjá mánuði sem foreldrar geta ákveðið hvernig þeir deila. Enn í dag hafa íslenskir feður sterkari sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs en tíðkast á öðrum Vesturlöndum.

Í athugasemdum með því lagafrumvarpi og í almennum umræðum komu þó fram þau sjónarmið stjórnvalda að væri foreldrum gert kleift að skipta með sér umönnun barna sinna mundi það jafna möguleika kynjanna á vinnumarkaði, fjölga konum í stjórnunarstöðum og draga úr kynbundnum launamun. Þetta var lykilatriði í þessu þannig að það þyrfti að gera það aðgengilegt fyrir feður að taka fæðingarorlof ef þeir svo kjósa.

Þegar við fórum að skoða þessi mál, í framhaldi af undirbúningi fjárlagafrumvarpsins, kom í ljós að ekki var búið að fjármagna þá lengingu á fæðingarorlofi sem ákveðið hafði verið að fara í. Það lá ekki fyrir hvernig ætti að fjármagna hana. Þá var að mínu mati einmitt svo mikilvægt að horfa til markmiðanna með lagasetningunni. Þær aðgerðir og sú tilraunastarfsemi sem fyrri ríkisstjórn, sem hv. þingmaður var í forsvari fyrir, fór í með fæðingarorlofið hefur einmitt sýnt hversu miklu máli skiptir að báðum foreldrum sé gert kleift að taka fæðingarorlof.

Við höfum séð að feður hafa síður tekið fæðingarorlof. Við þyrftum í mun meira mæli að hvetja til þess að feður taki líka sameiginlega hlutann í auknum mæli og að það séu skýr skilaboð frá stjórnvöldum um að þetta sé ákveðinn rammi þannig að foreldrar taki þetta sem allra fyrst eftir að barn fæðist. Þá þarf að gera þeim það kleift og þannig að konur sem eru með hærri tekjur og síðan karlar sem því miður hafa oft verið með betri stöðu á vinnumarkaðnum — þetta var stórt skref til þess einmitt að styðja við jafnrétti kynjanna.

Mín framtíðarsýn sem snýr að fæðingarorlofinu er þess vegna sú að taka skerðingarnar til baka áður en aukið er við réttinn. Ég tel líka mjög mikilvægt að þegar við förum í lenginguna höfum við gott samráð við alla aðila vinnumarkaðarins en ekki einstaka þeirra. (Forseti hringir.) Þegar kemur að því að brúa bilið milli fæðingarorlofsins og leikskólanna tel ég mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að huga að því, samhliða hugsanlegum breytingum, eins og menn hafa verið að tala um, í þá átt að stytta þann tíma sem nemendur eru í skólakerfinu fram að framhaldsskóla. (Forseti hringir.) Þar undir þurfa leikskólarnir að vera og hlutverk sveitarfélaganna.