143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þá umræðu sem á sér hér stað. Hún er mikilvæg. Auðvitað þekkjum við þá miklu breytingu sem lögin okkar um fæðingarorlof hafa skapað íslensku samfélagi, breytingu til hins betra. Þetta var stórt skref í janúar 2003 þegar þessi löggjöf tók gildi og ég fagna því að heyra hér að menn eru sáttir við hugmyndafræðina í löggjöfinni okkar. Það er mjög mikilvægt.

Við megum ekki missa sjónar á því að jafnréttismál lita tilgang laganna, það að tryggja að báðir foreldrar eigi rétt á að umgangast barn sitt, að barnið fái umhyggju og umönnun beggja foreldra. Jafnframt er þetta mikilvægt vopn til þess að jafna stöðu kynja á vinnumarkaði, styrkja stöðu kvenna sem eru að sækja fram í stjórnunarstöður á vinnumarkaði og reyna að ná því markmiði að minnka tekjumun milli kynjanna. Hann hefur reyndar aukist á undanförnum árum og af því hef ég áhyggjur.

En hér erum við að ræða um það, ef ég skil málshefjanda rétt, hvort réttara sé að hækka greiðslurnar eða lengja tímabilið. Um þetta getum við verið ósammála, og erum það sjálfsagt, en ég tel þessa umræðu líka hafa fengið ákveðið svigrúm hér í þinginu á síðasta þingi þegar við ræddum um frumvarp til laga um breytingu á lögunum um fæðingarorlof þegar þáverandi ríkisstjórn fór í að lögfesta þessa lengingu. Hún var í rauninni ávísun inn í framtíðina, það var ekki búið að tryggja fjármögnun á þeirri leið og öll þau sjónarmið (Forseti hringir.) koma fram í þeim nefndarálitum sem birtust þó að það sé í rauninni hugmyndafræðilegur ágreiningur um hvort rétt sé að fara í það fyrst að ná upphæðunum til baka eða í það að lengja. Það (Forseti hringir.) hefur jafnframt kristallast í umræðunni í dag.