143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður á að gera sér grein fyrir því að ef hann kveikir undir gamalli kolavél þarf stundum að þola hita í herberginu. (Gripið fram í.) Já, ég er heitur, það er alveg hárrétt, vegna þess að ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn fari í þennan leiðangur af illum ásetningi.

Það muna allir sem hér voru þegar þessi hildarleikur gekk yfir á sínum tíma að þá sögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hátt og í hljóði, þar á meðal sá sem … [Hóstað í þingsal.] á sínum tíma, úr þessum ræðustól líka, að sjálfsagt væri að beita landsdómi aftur á þá sem þeir töldu þá standa fyrir honum.

Ég er ekki í þeim hópi þannig að ég get óhræddur talað án þess að sitja undir einhverjum hótunum Sjálfstæðisflokksins um það. Það er ekkert annað sem hv. þingmaður er að gera hér. Við skulum hafa það á hreinu, við skulum tala um hlutina eins og þeir eru.

Hv. þingmaður þorði það hins vegar ekki. Hv. þingmaður var með ýjanir og dylgjur gagnvart einum fjarstöddum hv. þingmanni í framsögu sinni. Það var ekkert annað, menn skulu bara horfast í augu við það. Ef hv. þingmaður vill fá umræðu á þessum nótum skal hann fá hana.