143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur greinum, annars vegar á 180. gr. og hins vegar 233. gr. Markmiðið með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til er annars vegar að veita einstaklingum með kynáttunarvanda refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda og hins vegar að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á grundvelli viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.

Rétt er að rifja upp að hinn 11. júní 2012 samþykkti Alþingi heildarlög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Í 1. gr. þeirra laga kemur fram að markmið laganna sé að tryggja einstaklingum með kynáttunarvanda jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi. Frumvarp það sem hér er lagt fram er liður í því að styrkja stöðu þessara einstaklinga með því að taka af öll tvímæli um að þeir njóti allra almennra réttinda til jafns við aðra þegna samfélagsins.

Virðulegur forseti. Í 180. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um að refsivert sé að neita manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, enda eigi háttsemin sér stað í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi. Jafnframt er refsivert að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi. Brot við þessu varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að til viðbótar þeim atriðum sem talin eru upp í ákvæðinu verði bætt við orðinu kynvitund og þannig er talið tryggt að réttarstaða og réttarvernd umrædds hóps verði sambærileg á við aðra hópa sem sérstaklega eru taldir upp í þessu ákvæði hegningarlaganna.

Virðulegur forseti. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er þess vegna orðalag ákvæðisins fært til samræmis við orðalag sambærilegra ákvæða í refsilöggjöf annarra norrænna ríkja auk þess sem breytingarnar eru nauðsynlegar til að fullgilda viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot frá 2003. Að auki er auðvitað verið að mæla fyrir þessum breytingum til að koma til móts við þá mannréttindabaráttu sem þessi hópur hefur lengi talað fyrir.

Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins. Ég tel að í því felist mikilvæg réttarbót og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og síðan til 2. umr.