143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra. Auk mín sem hér stend og flyt þetta mál sem 1. flutningsmaður eru meðflutningsmenn mínir hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Óttarr Proppé, Árni Páll Árnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Helgi Hjörvar, Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson, Vilhjálmur Árnason og Björk Vilhelmsdóttir.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem taki til heildstæðrar endurskoðunar lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusveppa og þess tjóns sem þeir geta valdið. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum að úrbótum fyrir 1. júlí 2014 sem ráðherra greini opinberlega frá.“

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 141. löggjafarþingi af þáverandi hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur en var ekki rædd og er nú endurflutt.

Í fyrra kom upp alvarlegt mál á Austurlandi vegna myglusveppa í þökum nýlegra íbúðarhúsa. Komið hefur í ljós að um 50 íbúðarhús á Egilsstöðum og Reyðarfirði eru illa farin vegna myglusveppa sem vaxið hafa í þökum húsanna en talið er líklegt að ástæða þess hafi verið samspil eftirfarandi þátta: hönnunar, uppbyggingar, meðferðar byggingarefnis, þar með talið flutnings og geymslu, og að rangt efni var notað í þakklæðningar. Íbúar húsanna hafa margir hverjir þurft að yfirgefa húsin tímabundið eða taka úr notkun einstaka hluta þeirra þar sem myglan er mest enda getur hún valdið fólki heilsutjóni. Auk heilsutjóns blasir við verulegt fjárhagstjón vegna vandans.

Vandamál af völdum raka og myglu í húsnæði einskorðast þó ekki við íbúðarhúsin fyrir austan. Vitað er um yfir 100 fjölskyldur hér á landi sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín til lengri eða skemmri tíma á undanförnum árum vegna heilsufarsáhrifa og annars tjóns af völdum myglusveppa og hafa tugir þeirra alfarið flutt úr húsnæði sínu. Í kjölfarið skerðist einnig atvinnuþátttaka, vinnuframlag og lífsþrek. Myglusveppatjón getur sett líf fólks í óvissu og það getur tekið langan tíma fyrir það að ná aftur fullum styrk og sambærilegum lífsgæðum og áður.

Svo virðist sem fá úrræði standi fólki til boða í aðstæðum sem þessum og er nauðsynlegt að stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur til að laga nauðsynlegt regluverk svo að tekið verði tillit til þess skaðvalds sem myglusveppir innan húss eru og þess tjóns sem þeir geta valdið. Leggja flutningsmenn því til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að skipa starfshóp sem skoði með heildstæðum hætti alla þá þætti sem við koma raka og myglusveppum í húsnæði hvort sem er í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Í því skyni er nauðsynlegt að hópurinn skoði m.a. tryggingamál, ábyrgð húsbyggjenda og þeirra er koma að endurbótum á húsnæði, ábyrgð eigenda í tilvikum leiguhúsnæðis, ábyrgð í fasteignaviðskiptum með tilliti til seljenda, kaupenda og fasteignasala, eftirlit stjórnvalda með hollustuháttum húsnæðis, áhrif myglusveppa á heilsu fólks og hvort nauðsynlegt sé að setja reglur um ástand húsa og lagfæringar með tilliti til myglusveppa og þá hvort setja eigi sérstaka mælikvarða eða opinber viðmið og hver þau skuli vera.

Flutningsmenn telja að skoða þurfi málið út frá öllum hliðum þess með það að leiðarljósi að fyrirbyggja vandamálið og draga úr rakavandamálum og þar með algengi myglusveppa í húsnæði, skerpa á ábyrgð hönnuða og byggjenda, tjónamats- og viðgerðaraðila, umsjónarmanna og söluaðila húsnæðis með hliðsjón af skyldutryggingum á þeirra vegum og veita íbúum og eigendum íbúðarhúsnæðis raunveruleg úrræði sem hægt er að reiða sig á þegar upp koma tilvik myglusveppa. Einnig þarf að skoða sérstaklega ábyrgð innflutningsaðila, söluaðila og kaupenda á byggingarefni og byggingarhlutum, hvernig þessi efni eru geymd og varin á sölustað jafnt sem á byggingarstað. Í sumum tilfellum er myglað byggingarefni notað við byggingu nýrra húsa eða við endurbætur, ýmist vegna þess að efnið kom myglað til landsins, var geymt óvarið utan dyra á lager, í verslun eða á byggingarstað. Þá skuli starfshópurinn skoða sérstaklega þá þætti er snúa að heilbrigðisþjónustu í tengslum við heilsufar og myglusveppi og hvort velferðarráðuneytið eða landlæknir skuli gefa út klínískar leiðbeiningar til lækna og starfsmanna í heilbrigðisgeiranum að norrænni fyrirmynd. Á það, virðulegi forseti, vil ég leggja mikla áherslu vegna þess að mér virðist af sögum sem fólk segir vera dálítill misbrestur á því hvernig þetta er greint og hvaða klínísku leiðbeiningar skuli hafa í þessu efni.

Í fyrri hluta septembermánaðar var haldið málþing um raka og myglu í byggingum og áhrif þess á heilsufar fólks þar sem fjöldi innlendra sérfræðinga auk finnska sérfræðingsins dr. Anne Hyvärinen komu fram. Tilgangur málþingsins var að efla vitund um málefnið og styrkja samvinnu fagaðila og hefja aðgerðir til að sporna við því vandamáli sem myglusveppir í byggingum eru. Margt fróðlegt kom fram á málþinginu og ljóst að auka þarf þekkingu á því hvernig myglusveppir þrífast, hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir þá og hvernig má losna varanlega við þá, bæði meðal almennings og þeirra fagstétta sem málið varðar.

Virðulegi forseti. Myglusveppir eru mikilvægur hlekkur í lífríki náttúrunnar. Þeir gegna mikilvægu hlutverki við niðurbrot næringarefna og hringrás þeirra í náttúrunni. Þegar myglusveppir brjóta niður efni og verða sér úti um æti verða til ýmis efni sem fara út í andrúmsloftið og þekkjum við einna helst þau sem mynda það sem kallað er fúkkalykt. Þá framleiða þeir einnig efni með annars stigs efnaskiptum en það eru oft efni sem eru framleidd til annars en að sinna frumþörfum lífverunnar. Þessi efni eru oft mjög eitruð og er oft að finna í miklu magni bæði í gróum og svepphlutum. Gró myglusveppa finnast alls staðar og gró spíra, vaxa og mynda myglu þegar skilyrði verða hagkvæm til vaxtar. Myglusveppir og gró þeirra geta haft áhrif á heilsu þrátt fyrir að raki hafi verið upprættur. Gró geta gefið frá sér eiturefni í dvala hvort sem þau eru virk eða óvirk. Því er ekki nægilegt að drepa gró og myglu heldur þarf að fjarlægja hana og afleiðuefni eins og unnt er, eigi að taka tillit til heilsufarsáhrifa.

Myglusveppir þrífast aðeins þar sem er raki. Loftraki í híbýlum manna getur verið tiltölulega hár og því nauðsynlegt að rétt efni séu notuð til húsbygginga. Mygla nær að vaxa þar sem byggingarefni nær ákveðnu rakainnihaldi í tiltekinn tíma. Raka- og mygluvandamál koma fram þar sem er leki, rakaþétting eða þar sem vatnstjón hefur orðið. Kjöraðstæður skapast því fyrir myglusveppi innan dyra á stöðum þar sem er viðvarandi mikill raki. Á það t.d. við um baðherbergi, þvottahús, kjallara, bílskúra og fleiri slíka staði en einnig í lokuðum rýmum eða byggingarhlutum eins og í þaki eða grunni og á útveggjum þar sem hætta er á rakaþéttingu, t.d. vegna kuldabrúar þar sem raki úr heitu lofti þéttist á köldu yfirborði og daggar. Að sama skapi geta léleg loftskipti myndað kjöraðstæður fyrir myglusveppi og er því nauðsynlegt að halda loftrakastigi lágu og gæta þess að loftskipti séu regluleg og góð.

Raka- og mygluvandamál geta verið falin og reynast eingöngu sjáanleg í tæplega fjórðungi tilfella á norðlægum slóðum. Meðal annars af þeim sökum er mikilvægt að aðeins skoðunarmenn með þar til gerða fagþekkingu séu fengnir til að meta aðstæður þegar raki kemur upp og sjá um sýnatökur. Afleiðingar af röngu tjónamati og verklegri meðhöndlun geta verið afdrifaríkar og skaðað enn frekar. Flutningsmönnum þykir rétt að starfshópurinn kanni hvort ástæða sé til þess að búa svo um hnútana að matsaðilar í slíkum málum þurfi að hafa einhvers konar vottun eða löggildingu til að geta veitt þessa sérhæfðu þjónustu.

Gró myglusveppa eru til staðar í lofti utan dyra og berast inn í híbýli manna með lofti, vatni og lifandi verum. Gró myglusveppa eru almennt ekki vandamál í lofti utan dyra en verða fyrst að vandamáli þegar þau fá að margfaldast inni í híbýlum manna þegar þau spíra, vaxa upp sem myglur og mynda enn þá fleiri gró inni í afmörkuðu rými. Þær aðstæður eru þar sem er raki og æti og þá fara myglusveppirnir að hafa áhrif á heilsu fólks. Til ætis teljast öll lífræn efni og þar með flest byggingarefni, svo sem timbur, fúgur, lím, málning og önnur lífræn efni sem finnast í ryki sem nóg er af í húsum.

Áhrif raka og myglusveppa í húsnæði á heilsu fólks eru mismikil og er fólk misberskjaldað fyrir áhrifum myglusveppa. Eins er mismunandi á milli tegunda hvaða áreiti þeir geta valdið en tegundirnar sem ná að vaxa ráðast af hagstæðum vaxtarskilyrðum og æti á hverjum stað. Til eru tegundir myglusveppa sem þrífast í húsum og gefa frá sér krabbameinsvaldandi eiturefni. Þó að oftast sé talað um myglusveppina sjálfa sem heilsufarsáhættuþátt eru einnig aðrir áhrifaþættir sem líklega skipta máli í húsnæði þar sem kemur upp rakavandamál, svo sem bakteríur, rykmaurar og útgufun frá byggingarefnum. Vegna hugsanlegs samspils þessara þátta og óvissu um raunverulegt orsakasamhengi orðar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) það einfaldlega svo í skýrslu sinni frá 2009 að raki í húsnæði sé heilsuspillandi.

Fyrstu heilsufarsáhrifin sem gjarnan verður vart eru flensulík einkenni, aukin tíðni astma, óþægindi í öndunarfærum og svefntruflanir. Sé fólk hins vegar berskjaldað fyrir áhrifum myglusveppa og/eða álagið er mikið og langvarandi í húsi geta áhrif þeirra m.a. verið þreyta og orkuleysi, ýmiss konar bólguviðbrögð og sýkingar, ennis- og kinnholubólgur, hósti, sjóntruflanir, jafnvægistruflanir, áreiti í slímhúð, meltingartruflanir, húðvandamál, liðverkir og truflanir í ónæmis- og hormónakerfi en áhrifin eru þó eins og áður segir mjög einstaklingsbundin. Algengustu áhrifin á börn eru hitasveiflur, sýkingar, astmi og höfuðverkur en myglusveppir geta valdið stöðugum veikindum hjá börnum og fjölmörg dæmi eru um að sýnilegustu veikindin hverfi mjög snögglega eftir að flutt er úr húsnæði þar sem myglusveppir eru til staðar í einhverjum mæli.

Áhrif myglusveppa á heilsu manna eru ótvíræð en jafnframt einstaklingsbundin og því getur verið erfitt að rekja tiltekin einkenni beinlínis til myglusveppa í húsnæði verði þeirra ekki vart á yfirborðinu. Eins getur verið erfitt að sanna með beinum prófunum tengsl milli myglusveppa í húsnæði og heilsubrests einstaklings, en sé ekki um ofnæmi fyrir myglusveppum að ræða er ekki til nein ein klínísk prófun sem tekur af allan vafa. Ein aðferð til greiningar sem notuð er í dag er að skrá niður einkenni og athuga fylgni þeirra við veru í ákveðnu húsnæði. Þar sem myglusveppir hafa sannarlega verið til staðar í húsnæði og hafa verið hreinsaðir í burtu eða ef fólk yfirgefur tiltekið húsnæði er greinileg fylgni milli heilsu íbúa og myglusveppanna.

Um þrjú ár eru nú liðin frá því Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út tilskipun varðandi raka í húsnæði sem heilsufarsáhættuþátt. Nauðsynlegt er því að búa svo um að sem flestir geti búið í þurru húsnæði þar sem myglusveppa gætir ekki.

Virðulegi forseti. Margt fleira í þessari greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram í kaflanum „Viðbrögð við myglusveppum“ en mig langar aðeins að nefna hér örfá atriði á þeim fáu mínútum sem ég á eftir í þessari ræðu.

Lendi fólk í þeirri örlagaríku aðstöðu að myglusveppir komi upp í íbúðarhúsnæði getur því reynst afar erfitt að ná fram rétti sínum og oftar en ekki er raunin sú að fólk þarf einfaldlega að bera sitt tjón sjálft og getur það í mörgum tilvikum verið töluvert. Hér, virðulegi forseti, er farið yfir það sem er fjárhagslegt tjón en ég mun koma að því á eftir og taka dæmi sem ég hef heyrt frá fólki um stórkostlegar skuldir og vandamál sem hafa komið upp í fjárhag fólks þar á eftir. Heilsufarstap er auðvitað miklu verra og það er fylgifiskur þessa vágests, ef svo má að orði komast, sem er líka til staðar og við teljum að þurfi að fara betur í gegnum en það mun ég líka gera hér í næstu ræðu minni á eftir þar sem ég fer, eins og ég sagði áðan, betur yfir þessi mál.

Flutningsmenn telja nauðsynlegt að tekin verði til heildstæðrar skoðunar lög og reglur sem geta tekið til myglusveppa og tjóns sem þeir valda. Við rannsókn þessara mála má auk þess gera ráð fyrir að önnur atriði komi til skoðunar en nefnd hafa verið hér og er mikilvægt að allar mögulegar leiðir til forvarna og úrbóta verði kannaðar í þaula og niðurstöðum skilað eins og fyrr segir fyrir 1. júlí 2014. Rétt er að skoða hvaða úrræðum önnur lönd sem eru komin hvað lengst í þessum málum hafa beitt. Telja flutningsmenn eðlilegt að í starfshópi sem ráðherra skipi á grundvelli þingsályktunartillögu þessarar verði aðilar menntaðir í byggingafræðum, aðili með víðtæka fagþekkingu og reynslu á sviði rannsókna á myglusveppum í húsum og heilsufarsvandamálum þeim tengdum, auk aðila með kunnáttu á þeim lögum og reglum sem gilda um húsbyggingar og húsnæðismál.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari ræðu minni og umræðu um þetta mál legg ég til að því verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar til frekari úrvinnslu eins og lög gera ráð fyrir, þ.e. útsendingu og aðilar geti veitt umsagnir og gestir verði kallaðir til og vonandi til þess líka, virðulegi forseti, að þessi þingsályktunartillaga komist til síðari umr. í þinginu og þetta brýna hagsmunamál okkar allra verði samþykkt.