143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að leggja fram vandaða ályktun um þetta brýna mál. Ég styð það heils hugar. Ég vil eiginlega mælast til þess að þetta þingmannamál verði eitt af þeim málum sem við þingmenn getum komið okkur saman um að sé brýnt að fari í gegnum þingið þannig að þessi starfshópur geti skilað af sér á tilsettum tíma. Ég fagna því að það fari inn í mína fagnefnd. Ég vil lýsa furðu minni á því ekki skuli vera komin svona neytendavernd hérlendis, það er alveg magnað. Ég hef sjálf fengið mikið af bréfum frá einstaklingum og heyrt sögur af einstaklingum sem hafa búið í aðstæðum sem eru óviðunandi og af þrautagöngu þeirra þegar þeir ganga endalaust á veggi í kerfinu og mæta engum skilningi á því heilsutjóni sem þeir verða fyrir. Og auðvitað er fjárhagslegt tjón ofan á heilsufarstjón gríðarlega erfitt fyrir fólk.

Ég vil þakka þingmanninum fyrir og lýsi einlægum stuðningi við þetta mál.