143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller á hrós skilið fyrir að taka þetta mál upp og endurflytja hér ágæta tillögu flokkssystur okkar, fyrrverandi hv. þingmanns Jónínu Rósar Guðmundsdóttur, frá síðasta kjörtímabili.

Hv. þingmaður flutti hér líka mjög lærða ræðu um afleiðingar og skaðsemd myglusvepps. Þetta er vandamál sem við höfum ekki gert okkur gert okkur grein fyrir alla vega á hinum seinni tímum. Það er hins vegar alveg ljóst að a.m.k. af reynslunni þekktu formæður okkar og forfeður þetta. Þær vissu að heilsuspilling fylgdi oft því að búa í röku húsnæði og það var einmitt þess vegna sem fólk á mínum virðulega aldri kannast ákaflega vel við þá áráttu afa okkar og ömmu og þaðan af eldra fólks til þess að vera stöðugt að viðra út og viðra rúmföt. Það var vegna þess að menn lærðu af reynslunni að með þeim hætti tókst að dreifa því sem síðar kom í ljós að voru eiturefni í andrúmsloftinu þar sem um var að ræða rakt og þar af leiðandi heilsuspillandi húsnæði. Ég gleðst svo yfir því að hv. þm. Kristján L. Möller hefur lofað okkur annarri ræðu ekki síðri hér undir lok þessarar umræðu.

Í sjálfu sér er búið að fara yfir vandann eins og hann er. Það sem mér þykir þó best í þessari umræðu er að þeir þingmenn sem hér hafa talað hafa allir sammælst um að rétt sé að samþykkja þessa tillögu hið allra fyrsta í viðeigandi þingnefnd til þess að geta komið málinu hingað og gengið frá því. Því fagna ég, þetta er mál sem sker á öll flokksbönd. Þarna er kannski aðalmeinið sú staða sem tiltekinn hópur fólks er í, fólks sem hefur þess konar reynslusögur eins og hv. þm. Kristján L. Möller las upp hér áðan. Það segir beinlínis að það hefði verið betra fyrir sig, afkomu sína og fjölskyldunnar ef húsið hefði brunnið í stað þess að verða myglusveppi að bráð. Með þeim hætti er þessum vanda kannski best lýst.

Þarna er um að ræða hóp fólks, 50 eða 100 fjölskyldur sem tengjast 50 húsum sem eru í bráðavanda og fellur beinlínis niður á milli, fellur í gloppu þar sem enginn hefur skyldu til þess að koma því til hjálpar. Það er þess vegna sem málið er lagt fram hér á hinu háa Alþingi. Það ætti að vera hægðarleikur að ná sátt um að samþykkja tillöguna vegna þess að hún felur ekki annað í sér en að sett verði niður nefnd til þess að skoða með hvaða hætti hægt er að koma í veg fyrir að slíkur vandi endurtaki sig en þó um leið einnig með hvaða hætti hægt er að koma til móts við vanda þessa hóps sem er í reynd aflvaki og uppspretta þessarar tillögu.

Miðað við þær umræður sem hér hafa farið fram í dag má segja að vandinn sé tvíþættur, í fyrsta lagi að fylla upp í þau skörð sem eru í regluverki okkar Íslendinga og leitt hafa til þess að eftirlit hér og reglur um byggingar, meðferð byggingarefna, eru ekki jafn vel úr garði gerðar og í nágrannalöndunum. Það er vandamál framtíðarinnar sem sjálfsagt er að huga að. Hin hlið vandans er að finna leiðir til þess að aðstoða það fólk sem hefur lent í þessu, hefur þurft að flytja út úr húsi sínu og liðið margvíslegt tjón bæði á heilsu sinni, líka andlega, að ekki sé nú talað um hið fjárhagslega tjón sem er tvíþætt, annars vegar að standa uppi með ónýtar eignir í höndum sínum og hugsanlega af völdum sjúkdóma sem af þessum meinvætti leiða. Það hefur komið í veg fyrir að fólk geti haft framfæri af því að stunda störf sín eins áður.

Þá vill svo til að þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú situr við völd er nú ekki alvond, það er rétt að hrósa henni fyrir það góða sem hún a.m.k. býr sig undir að gera. Og af því að hér talar á eftir einn af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þá veit ég að hann upplýsir okkur áreiðanlega um það með hvaða hætti hæstv. forsætisráðherra hyggst efna það loforð sem hann gaf í upphafi þessa kjörtímabils um að setja á stofn sjóð sem bætir tjón sem hópur Íslendinga kann að verða fyrir ef um er að ræða stöðu þar sem enginn annar ber ábyrgð á. Það hefur hæstv. forsætisráðherra sagt. Þegar hæstv. forsætisráðherra lét þetta út úr sér á sínum tíma og ég gladdist við fót, datt mér reyndar í hug að hann væri akkúrat að hugsa um þetta fólk.

Ég er líka þeirrar skoðunar að til þess að ráða bót á þeim vanda sem nú blasir við þessum afmarkaða hópi og sömuleiðis ef svipað kann að spretta upp í framtíðinni sé langbest að fara þá leið sem hér hefur aðeins verið orðuð í umræðunni, þ.e. að Viðlagasjóður taki þetta á sig. Hvert er andlag Viðlagasjóðs? Það er að bæta tjón sem verður af náttúruhamförum. Hann bætir tjón af völdum snjóflóða, sjóflóða, skriðufalla og jarðskjálfta. Ef við lítum á þetta dæmi þar sem í tilteknu byggðarlagi hafa 50 hús ónýst af völdum myglusvepps, er það eitthvað annað en náttúruvá? Eru það ekki bara hamfarir? Ég tel að það væri kannski einfaldasta leiðin að skilgreina skaða af völdum myglusvepps sem eina tegund þeirra tjóna sem Viðlagasjóður á að bæta.

Mér þótti merkilegt að hlusta hér fyrr í dag á hv. þm. Óttar Proppé sem lýsti samtali sem hann hafði átt við Norðmann sem hafði upplýst hann um að í Noregi er opinber sjóður sem m.a. á að tryggja bætur til þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum myglusveppa. Það er fordæmi sem við ættum að skoða. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur bent réttilega á að í regluverki okkar eru gloppur og, að því er mér virðist af máli hans, margvíslegar. Þess vegna held ég að það sé svo brýnt að setja niður svona hóp til þess að skoða það.

Myglusveppur er, eins og hv. þingmaður sagði, mikilvægur partur af lífkeðjunni. Hann er eins konar niðurbrotsmaskína sem tekur og ryður í gegnum sig ýmiss konar úrgangi í náttúrunni og á þar með mikilvægan þátt í að brjóta niður næringarefni og koma þeim af stað aftur í gegnum fæðukeðjuna. Við þetta niðurbrot verða til efni sem geta verið skaðleg en sömuleiðis verður líka til úrgangur frá sveppunum sjálfum eða gróum hans sem eru eitruð. Í sumum tilvikum getur það valdið krabbameini, það fer eftir tegundum. Og eins og hér hefur verið lýst veldur þetta stundum stórkostlegum skaða á heilsu manna, stundum tímabundnum, og eins og hér var lýst að þegar menn skipta um húsnæði er oft undinn bráður bugur að því að bæta heilsufarslega erfiðleika viðkomandi, en stundum verður skaðinn alvarlegur og miklu meira langvarandi.

Við vitum það nú líka, svo skrýtið sem það er, að þetta vandamál hefur m.a. komið upp á mikilvægum heilbrigðisstofnunum í mínu kjördæmi, sem er náttúrlega algjörlega stórmerkilegt og ekki vansalaust að slíkar stofnanir skuli vera svo illa komnar, svo gamlar, að þar sé heilbrigðisstarfsfólki hætta búin, en þannig er það. Þess vegna tel ég að það þurfi að taka á þessu máli. Það alvarlegasta sem getur gerst, eins og hv. þingmaður lýsti í sinni góðu ræðu, er auðvitað að menn geta lent í því að fá hroðaleg mein eins og krabbamein.

Ein tegund eiturefna sem myglusveppur og gró hans gefa frá sér leiðir til þess að það getur orðið bæling, tímabundin bæling eða verulegur langvarandi skaði sem ónæmiskerfi líkama er búinn. Það þýðir að viðkomandi fær ekki bara umgangspestir heldur getur hann í tímans rás orðið miklu verr úti. Hér er því um raunverulega heilsufarsvá að ræða gagnvart þeim sem búa í svona húsnæði.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að það eigi að samþykkja þessa tillögu sem fyrst. Þessi hópur á að miða starf sitt að tvennu: Í fyrsta lagi að bæta regluverkið til þess að draga úr líkum á að svona verði aftur og í öðru lagi að finna leiðir til þess að bæta fjárhagslegan skaða þess hóps sem núna stendur andspænis miklum eignamissi, og sömuleiðis sem getur tekið á sig slíkar bætur í framtíðinni. Ég tel best að leita leiða til þess að nýta Viðlagasjóð til þess.