143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er farinn að þekkja mig. Mér er alveg sama hvernig kötturinn er á litinn, bara að hann veiði mýs.

Mér er í sjálfu sér alveg sama hvort það verði nýr sjóður, viðlagatrygging eða eitthvað annað sem tryggir það einfaldlega að ef við lendum í þessu vandamáli í framtíðinni standi fólk ekki, eins og hv. þingmaður orðaði það, berskjaldað á berangri og fái enga liðveislu. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag lýsa sumir sem hafa lent í þessu þannig með orðum hv. þm. Kristjáns L. Möllers, að þetta sé verra en að lenda í bruna. Ef þú lendir í bruna vitum við að það er einhver sem bætir tjónið, en það er enginn sem kemur til hjálpar í þessu tilviki og við þær aðstæður verður samfélagið með einhverjum hætti að gera það.

Ég þekki málið ekki nógu vel til þess að hafa vitað það fyrir fram en mér skildist á svari hv. þingmanns að komið væri samkomulag í þessu tiltekna dæmi. Kannski hef ég misskilið það en ef svo er fagna ég því, en það hef ég nú ekki skilið til þessa. Ég hef skilið það svo að það fólk sé enn þá í örvæntingu að leita einhverra bjargráða. Og af því að ég upplýsti um fortíð mína úr tryggingaheiminum á ég nú eftir að sjá tryggingafélögin koma sjálfviljug að svona máli.