143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

undanþágur frá upplýsingalögum.

[10:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ný upplýsingalög tóku gildi um síðustu áramót. Þau taka bæði til allrar starfsemi stjórnvalda og allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Ráðherra getur ákveðið samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna að tilteknir lögaðilar falli ekki undir gildissvið laganna að fenginni tillögu frá hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum og umsögn Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi laganna segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um það hvort tiltekið fyrirtæki getur fallið undir undanþágureglu 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins verður að byggja á sérstöku mati á starfsemi viðkomandi fyrirtækis og markaðsaðstæðum á því sviði sem það starfar á. Ljóst er jafnframt að henni ber að beita af mikilli varfærni.“

Hæstv. forsætisráðherra veitti nýverið á fimmta tug lögaðila undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga á grundvelli framangreinds ákvæðis.

Í 2. gr. auglýsingar ráðherra nr. 600 frá því í júní í ár er 36 lögaðilum veitt undanþága frá upplýsingalögum sem skal, með leyfi forseta, „endurskoðuð að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins þó eigi síðar en 1. janúar 2014“.

Hér veitir forsætisráðherra undanþágu frá lögum án þess að hafa fengið umsögn Samkeppniseftirlitsins þrátt fyrir að upplýsingalög kveði skýrt á um að ráðherra geti aðeins veitt undanþágur eftir að hafa fengið slíka umsögn. Við þetta má bæta að samkvæmt umfjöllun fjölmiðla um þessar undanþágur virðist Samkeppniseftirlitið koma af fjöllum og getur ekki svarað fyrir að fram hjá þeim sé gengið í ferlinu og vísar á ráðuneytið.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji það samræmast lögum að veita undanþágurnar án þess að umsagnir Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir. Það er mjög mikið grundvallarmál fyrir Pírata að upplýsingafrelsi og upplýsingaréttur almennings sé virt.