143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hafa frumvörp af þessu tagi komið fram alloft áður. Ég hef löngum verið í hópi þeirra sem hafa haft efasemdir um að rétt væri að fara þessa leið.

Í fyrsta lagi hef ég yfirleitt verið þeirrar skoðunar og látið þá skoðun í ljós að eðlilegra væri að þetta mál væri afgreitt í samhengi við stjórnarskrána en ekki með breytingu á þingsköpum. Þó að þetta sé gerleg leið þá finnst mér fara betur á því að breyting af þessu tagi sé ákveðin í stjórnskipulegu samhengi en ekki með breytingu á þingsköpum.

Í annan stað, þótt ég viðurkenni að sjálfsögðu að með þeirri breytingu sem hér er lögð til væri með táknrænum hætti verið að auka aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, hef ég efasemdir um að þetta mundi hafa mikil áhrif í raun og veru. Staðreyndin er sú að í þingræðisfyrirkomulagi þar sem ríkisstjórn styðst við meiri hluta þings á hverjum tíma er auðvitað samkrull bæði í jákvæðri merkingu og neikvæðri milli meiri hlutans í þinginu og ríkisstjórnar. Ráðherrar í ríkisstjórn verða áfram pólitískir leiðtogar í þeim málaflokkum sem undir þá heyra. Það verður auðvitað þannig. Þannig er það í löndunum í kringum okkur að ráðherrar gegna pólitísku forustuhlutverki, þeir eru ekki bara embættismenn heldur gegna þeir pólitísku hlutverki á sínu sviði og hafa þar af leiðandi áhrif innan þeirra flokka sem þeir starfa og samstarfsflokka. Auðvitað verður samkrullið áfram fyrir hendi. Aðskilnaður hinna mismunandi þátta ríkisvaldsins verður aldrei fullkominn ef við viljum á annað borð búa við þingræðisfyrirkomulag þar sem ríkisstjórnin á líf sitt undir stuðningi þingsins. Það virkar bara þannig. Hinn fullkomni aðskilnaður valdþátta ríkisvaldsins næst ekki í þingræðisfyrirkomulagi.

Sú breyting sem hér er lögð til er ekkert stórfengleg og í sjálfu sér ekki hættuleg á neinn hátt. Þetta er ekki alvarlegt mál í mínum huga. Á hinn bóginn hef ég löngum verið þeirrar skoðunar að í þessu samhengi skipti máli það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi í ræðu sinni áðan að með þessari breytingu, ef hún næði fram að ganga og ef allir ráðherrar sem koma úr röðum þingmanna mundu nýta sér þetta, þá mundi misvægi milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu aukast mjög mikið.

Ef við tökum stöðuna eins og hún er í dag þá eru í þinginu 38 þingmenn ríkisstjórnarflokka og 25 þingmenn stjórnarandstöðu. Ef allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar segðu af sér þingmennsku tímabundið eða vikju frá þá væru hlutföllin 47 á móti 25. Það munar dálítið um það og það munar um það í litlu samfélagi þar sem við tökum þátt í pólitísku starfi og eigum í pólitískum deilum eða málflutningi að fjölga öðrum megin atvinnupólitíkusum í fullu starfi sem geta beint kröftum sínum alfarið að baráttunni fyrir hönd sinna flokka og hugsjóna sinna. Misvægið með slíkri breytingu milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu mundi aukast mjög mikið og er þá ekki tekið tillit til þess að þeir sem eru í ríkisstjórn á hverjum tíma hafa auðvitað mun meira svigrúm til að ráða aðstoðarmenn og nýta sér krafta embættismannakerfisins sínum málstað til framdráttar. Þannig er veruleikinn. Og þótt ég ítreki að það er ekki að mínu mati verið að vega að stjórnskipun Íslands með neinum alvarlegum hætti, jafnvel þótt mál af þessu tagi næði fram að ganga, þá held ég að gallinn sem ég nefni sé eiginlega nægur til að menn eigi að staldra við og velta fyrir sér hvort það skref sem þeir ætla að stíga muni raunverulega skila þeim á árangri sem þeir stefna að eða ekki.

Ég verð síðan að geta þess í lokin, hæstv. forseti, að það er auðvitað allur gangur á því í löndunum í kringum okkur, sem búa við svipað stjórnfyrirkomulag og við, hvernig þessum málum er háttað, hvort ráðherrar eru jafnframt þingmenn eða ekki. Miðað við það sem ég hef lesið eða kynnt mér um þau efni virðist það skipta ósköp litlu máli fyrir velgengni þessara landa eða lýðræðislegt fyrirkomulag þar hvor leiðin er valin. Ég held að menn megi ekki ofmeta áhrif breytingar af þessu tagi. Þetta mundi vissulega fela í sér táknræna breytingu um aðskilnað þátta ríkisvaldsins en mér er til efs að raunverulegur árangur yrði mikill. Niðurstaðan gæti orðið sú, eins og ég rakti hér áðan, að þeir sem eru í meiri hluta yrðu enn öflugri og þeir sem eru í minni hluta enn veikari á hinu pólitíska sviði.