143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[16:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innleiðingu inn í þessi mál og ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera orðinn samstarfsráðherra Norðurlandanna. Ég veit að formennskutíðin hjá okkur Íslendingum mun reynast farsæl og ég óska hæstv. ráðherra velfarnaðar í störfum sínum.

Ég er formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og formaður Vestnorræna ráðsins, sem er samstarf Íslands við Grænland og Færeyjar. Þar setjast þingmenn allra þessara landa niður og reyna að átta sig á helstu sameiginlegu áherslum og reyna að vinna þeim brautargengi í gegnum þjóðþingin. Sem formaður Vestnorræna ráðsins fór ég á Norðurlandaráðsþing í Ósló nú á dögunum þar sem verið var að kynna formennskuáætlun Íslands. Mjög gott var að fylgjast með þeirri umræðu og heyra þær spurningar sem félagar okkar á Norðurlöndunum höfðu til íslensku ráðherranna, og þá sérstaklega til hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur, vegna þessara mála.

Mig langar, vegna setu minnar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, að fagna sérstaklega þeirri áherslu sem formennskuáætlunin leggur á Vestur-Norðurlöndin, á norræn haf- og strandsvæði. Þessi svæði okkar eru háð nýtingu náttúrulegra auðlinda og áherslan felst í því að leita leiða til að nýta betur lifandi auðlindir hafsins, sem er ein uppistaðan í lífskjörum Vestur-Norðurlanda. Þetta eru miklar strandveiðiþjóðir, Færeyingar eru með um það bil 90% af gjaldeyristekjum sínum í gegnum sjávarútveginn, og þess vegna er sjávarútvegurinn það mál sem við á Vestur-Norðurlöndum eigum mikið samstarf um.

Mig langar líka að fagna því að af Íslands hálfu er mikil áhersla á samstarf Vestur-Norðurlanda. Þetta samstarf þjóðþinganna, þ.e. Færeyja, Íslands og Grænlands, er besta dæmið um það hvernig Vestur-Norðurlönd hafa átt með sér gott samstarf og það samstarf hefur sérstaklega átt sér stað á sviði menningarmála og þeirra sameiginlegu hagsmuna annarra sem við höfum fundið stað hverju sinni.

Í þessu sambandi vil ég fagna þeirri áherslu í formennsku Íslands að gera Norðurlöndin að einu svæði og þar með talið Vestur-Norðurlöndin þar sem samgangur milli fólks er greiður og hægt er að stunda viðskipti yfir landamæri án þess að ósamrýmanlegar reglur girði þá fyrir, eins og segir orðrétt í formennskuáætluninni. Höyvíkur-samningurinn á milli Íslands og Færeyja er gott dæmi um stefnumótun og afnám landamærahindrana, til að geta betur samnýtt þjónustu o.fl. Höyvíkur-samningurinn er víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert, að EES-samningnum undanskildum.

Margt hefur áunnist fyrir tilstilli þess samnings en þó eru enn hindranir í veginum, einkum er varðar matarinnflutning frá Færeyjum og Grænlandi til Íslands vegna íslenskra reglna sem lúta að sjúkdómavörnum. Það er von Vestnorræna ráðsins að úr verði bætt á formennskuári Íslands eins og pólitískur vilji virðist standa til samkvæmt fundi sem við sem sitjum í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins áttum með samstarfs- og utanríkisráðherrum Vestur-Norðurlanda á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló.

Matur skiptir afskaplega miklu máli fyrir Grænlendinga og Færeyinga og matarhefðir eru mjög ríkar. Þegar fólk frá þessum löndum er að færa sig á milli svæða til að stunda vinnu sína — Grænlendingar þurfa, til að fara frá austur- til vesturstrandarinnar, stundum að fljúga í gegnum Ísland og lenda hér ef ófært er á flugvellinum sem þeir ætluðu sér að lenda á í upphafi eða þá að þeir millilenda einfaldlega hér á Íslandi. Þá er það oft þannig að það nesti sem menn hafa tekið með sér, sem er oft selspik eða hvalur, er gert upptækt vegna þess að ekki má koma með það hingað. Þetta þykir Grænlendingum og Færeyingum skiljanlega mjög hvimleitt vegna þess að lífið á norðurslóðum snýst jú að miklu leyti um mat.

Þetta er mál sem við getum tekið upp og breytt og við eigum að breyta reglunum okkar. Danmörk hefur gert ákveðnar undanþágur og Danmörk er jú í Evrópusambandinu en það er vegna Evrópureglna sem þetta er svona stíft. En við eigum að mínu viti að finna leið til þess að leysa þetta vandamál. Ég hef fulla trú á því að við náum að gera það á þessu kjörtímabili.

Það er gaman að segja frá því að í janúar mun Vestnorræna ráðið halda þemaráðstefnu í Færeyjum um mat, sem mun að einhverju leyti snúast um þessar hindranir og hvernig við getum rutt þeim úr vegi, hvernig við getum stækkað viðskiptasvæði okkar, þ.e. gert viðskipti milli landanna auðveldari í stærra samhengi. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvernig þetta mun síðan allt skila sér inn regluverkið hjá þessum þjóðum, sem það vonandi gerir.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki bara að tala um mat í þessari ræðu minni. Mig langar að fagna sérstaklega þeirri áherslu í áætluninni að leita leiða til að skapa lífvænlegri skilyrði fyrir búsetu kvenna, ekki síst í strjálbýlum samfélögum, sem fara í meira mæli en karlar frá heimabyggð sinni og snúa ekki til baka. Þetta hefur leitt til verulegrar fækkunar í röðum kvenna, sér í lagi á jaðarsvæðum, sér í lagi á jaðarsvæðum Vestur-Norðurlanda og jaðarsvæðum á Norðurlöndum. Ég hef átt fund með þingmanni á norska Samaþinginu þar sem þetta er mikið áhyggjuefni, í Norður-Noregi, vegna þess að konurnar eru að fara. Þetta virkar þannig að konurnar fara og sækja sér menntun en snúa ekki aftur heim vegna þess að störf við hæfi eru ekki í boði.

Vestnorræna ráðið hefur samþykkt ályktun, sem liggur hér í utanríkismálanefnd og verður einnig flutt í þjóðþingum Grænlands og Færeyja, um þessi mál. Þar er þess óskað að ráðherrarnir, sem sagt menningarráðherrarnir, taki saman skýrslur og rannsóknir sem skrifaðar hafa verið um þetta áhyggjuefni allra þessara landa, hvort við getum ekki í sameiningu reynt að spyrna við fótum. Ég trúi því að það sé hægt. Upplýsingar eru alla vega lykillinn að árangri og það fyrsta sem við getum gert er að safna þessu saman. Við getum síðan borið saman bækur okkar — þetta er vissulega vandamál í Samabyggðum — og reynt að finna út úr því hvað hægt er að gera. Áherslan sem birtist okkur í áætluninni er sú að efla þessi samfélög með nýsköpun, bættri nýtingu náttúruauðlinda og auka samstarf við rannsóknastofnanir og háskóla, og því ber að fagna.

Mig langar jafnframt að vekja máls á því að haldin verður ráðstefna um breytingar á útbreiðslu fiskstofna í ljósi loftslagsbreytinga, það er eitt af því sem á að gera í formannstíð okkar. Mig langar af því tilefni að minna á að Vestnorræna ráðið hélt nú í ágúst, í samvinnu við Norðurlandaráð, ráðstefnu um nýtingu lifandi auðlinda hafsins þar sem deila Íslendinga og Færeyinga við Evrópusambandið og Noreg um makríl var mikið til umræðu. Ég veit til þess að Norðurlandaráð, sem var með okkur í því að skipuleggja þessa ráðstefnu og halda hana, mun halda áfram að fjalla um þetta mál á ráðstefnu sem haldin verður á Íslandi í apríl. Vonandi eigum við úr Vestnorræna ráðinu kost á því að sitja þar og fræðast enn frekar og taka þátt í þeirri umræðu sem þar verður.

Jafnframt kemur sú áhersla fram í formennskuáætluninni að leysa beri ágreiningsmál og milliríkjadeilur eftir diplómatískum leiðum, sem er einmitt sama áhersla og við í Vestnorræna ráðinu höfum þegar kemur að lausn makríldeilunnar. Þótt við séum ekki öll sammála um að rétt hafi verið hjá Færeyingum að auka síldveiðikvóta sinn einhliða — við getum alveg deilt um það — þá erum við öll í Vestnorræna ráðinu sammála um að það að hóta og beita refsiaðgerðum er ekki leiðin til að ná árangri.

Við eigum bókaðan fund í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins með Evrópusambandsnefndinni sem sér um þessi mál nú í nóvember. Þar munum við koma þessum sjónarmiðum Vestnorræna ráðsins til skila og reyna að fá þá sem þar starfa til að skilja að leysa beri ágreiningsmál og milliríkjadeilur eftir diplómatískum leiðum. Ég fagna því sérstaklega að þetta er jafnframt áhersla í þessari áætlun hér.

Ég lýsi sérstakri ánægju með þá áherslu í áætluninni að börn og unglingar sæki sér menntun utan hins hefðbundna skólakerfis til að skapa aukin tækifæri fyrir ungt fólk til að mennta sig og til að starfa. Ég tel að þetta sé mjög mikilvæg áhersla og mikilvægur punktur. Við í Vestnorræna ráðinu höfum lagt mikla áherslu á menntamál en þau voru einmitt þemað á ráðstefnu okkar árið 2009. Út úr því komu nokkrar ályktanir sem hafa farið hér í gegnum þingið og eru sumar hverjar enn í vinnslu í ráðuneytunum. Eins og ég sagði áðan hefur verið mikið samstarf á milli landanna þriggja, aðallega um menningarmál en við höfum líka fjallað mikið um menntamál. Sérstaklega vil ég vekja athygli á nýrri ályktun sem við samþykktum á ársfundi Vestnorræna ráðsins nú í ágúst er varðar börn með sértæka námsörðugleika. Við ætlum að reyna að leita leiða til að skoða hvort við getum í sameiningu náð betri árangri þar.

Ég fagna því jafnframt að til standi að halda menningarhátíð fyrir ungt fólk á aldrinum 14–17 ára. Það er hátíð um barna- og unglingabókmenntir sem haldin er árlega í tengslum við barnabókaverðlaun Norðurlandaráðs, sem voru veitt í fyrsta sinn nú í október. Þess vegna vil ég geta þess að við í Vestnorræna ráðinu veitum jafnframt barnabókaverðlaun en það hefur verið gert síðan árið 2002. Þau verðlaun hafa bæði þjónað þeim tilgangi að veita rithöfundum innblástur til að skrifa bækur fyrir börn og unglinga og gert menningarsamstarf Íslands, Færeyja og Grænlands sýnilegra. Við höfum jafnframt haldið vestnorrænan dag á Íslandi árið 2012, á Grænlandi árið 2013 og árið 2014 verður hún haldin í Færeyjum. Þennan dag er menningu landanna í víðum skilningi haldið á lofti með listsýningum, tónlistarflutningi, matarkynningum — aftur komum við að matnum — og fleiru sem tengist menningu þjóðanna. Það er markmið okkar í Vestnorræna ráðinu að þessi dagur verði haldinn árlega til skiptis í einu hinna þriggja landa sem teljast til Vestur-Norðurlanda.

Mig langar jafnframt að fagna áherslu Íslands á jafnréttismál eins og ráðstefnu um stöðu kynjanna á norðurslóðum og aðkomu þeirra að stefnumótun og ákvörðunartöku í málefnum er varða samfélags- og hagþróun, ráðstefnu um markmið og leiðir í jafnréttismálum og ráðstefnu um karlarannsóknir og jafnrétti. Jafnréttismál hafa verið á dagskrá Vestnorræna ráðsins alla tíð enda mjög mikilvægt að skapa skilyrði fyrir einstaklinginn, sama af hvaða kyni hann er, til að geta nýtt sköpunarkraft sinn, bæði í sína eigin þágu og eins fyrir samfélagið.

Vegna þessarar miklu áherslu sem er á Vestur-Norðurlöndin í formennskuáætlun Íslands vil ég að lokum hvetja stjórnvöld til að kynna sér enn betur efni ályktana Vestnorræna ráðsins. Mörg þeirra varða formannstíð Íslands. Jafnframt hvet ég ráðherrana til þess að kynna sér niðurstöður frá hinum fjölmörgu þemaráðstefnum ráðsins. Fyrir utan þá ályktun sem ég talaði um áðan til að takast á við lestrar- og skriftarvanda vorum við með þemaráðstefnu í janúar sl. á Ísafirði varðandi heilbrigðismál. Þar er verið að hvetja til aukins samstarfs um menntun heilbrigðisstarfsmanna, samskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna, þar með talið á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Það var niðurstaða ráðstefnunnar að hægt væri að ná enn betri árangri og líka hagræðingu — sem ég er mjög hrifin af — með því að vinna betur saman. Það er spennandi punktur sem við hljótum öll hér inni, sem erum áhugamenn um að skila hallalausum fjárlögum, að vera afskaplega kát með og hljótum að leggja áherslu á. Ég veit til þess að ráðherrar landanna sem sjá um heilbrigðismálin eru að skoða þessi mál í sameiningu.

Að lokum, herra forseti, vil ég einfaldlega óska Íslendingum velfarnaðar. Við í Vestnorræna ráðinu munum fylgjast grannt með því hvernig gengur hjá Íslandi í formannstíðinni. Ég veit að við munum eiga náið og gott samstarf um þessi mál öll. Ég lýsi yfir fullum vilja okkar til að gera það sem í okkar valdi stendur til að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig.