143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

matvæli.

110. mál
[14:51]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við séum með ítarlegt eftirlit með þeim umbúðum og þeim ílátum sem komast í snertingu við matvæli. Plastvæðing nútímans er gríðarlega mikil. Það væri að ósekju hægt að draga verulega úr slíkum umbúðum ef vilji væri til þess.

Það er eitt t.d. sem veldur áhyggjum, það eru plastumbúðir utan um drykkjarvörur. Ég hef heyrt það sagt að í plastumbúðum leysist út ákveðin efni sem ekki hafi góð áhrif á frjósemi karla. Það er auðvitað mjög slæmt fyrir kynstofninn manninn. Það er auðvitað svoleiðis með ýmsar matvörur. Ostur er t.d. afskaplega viðkvæmur fyrir því að liggja lengi í plasti. Margir hafa gert þá skyssu að vefja límingar- eða klísturplasti utan um ost til geymslu. Ostur við þær aðstæður tekur í sig efni úr plastinu sem eru hættuleg og ekki góð fyrir manninn.

Eins og ég segi þá fagna ég þessu frumvarpi. Það er ekki verra að það hefur ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Það stendur á pari, kostnaður og tekjur.