143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

[15:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get rifjað það upp með hv. þingmanni og við saman að svokölluð Norðlingaölduveita lenti í rammaáætlun 2, eftir umfjöllun hér á hinum pólitíska vettvangi, í verndarflokki. Í skoðanakönnun í faghópum verkefnisstjórnar rammaáætlunar 2 voru sex sem vildu nýta þann kost, enginn vildi setja hann í bið og sex vildu setja hann í verndarflokk. Kosturinn hefur augljóslega verið umdeildur, kosturinn er augljóslega einhver hagkvæmasti virkjunarkostur í endurnýjanlegri vatnsorku, í það minnsta hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Ég hef hins vegar lagt á það áherslu, og ætla að gera það enn og aftur hér úr þessum ræðustól, að það að friðlýsa Þjórsárver kemur ekki í veg fyrir að einhverjir kostir komi til sögunnar seinna meir í rammaáætlunum framtíðarinnar. Það hefur aldrei verið meining mín og ég tel að 40 ára barátta fyrir stækkun og friðlýsingu Þjórsárvera per se, áður en nokkur maður (Forseti hringir.) fann upp á orðinu Norðlingaölduveita eða Kvíslárveitur, (Forseti hringir.) hafi ekki snúist um að koma í veg fyrir einhverja virkjunarkosti. Hún snerist um að vernda og (Forseti hringir.) friða Þjórsárver. Við það ætla ég að standa.