143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ljóst að við erum öll sammála um að hraða þarf málsmeðferðinni. Það sem þarf að gera, á meðan fólk er í þessu limbói, að bíða eftir að mál þeirra sé afgreitt, er að tryggja að við veitum þessum einstaklingum eins mannúðlega umgjörð utan um hvern og einn og mögulegt er. Því hefur til dæmis verið ábótavant að þeir fái aðgengi að áfallahjálp. Ég veit að miklar úrbætur hafa átt sér stað en þær skila sér mjög hægt.

Mig langaði að benda á, út af því að hv. þm. Brynjar Níelsson segir að ég sé með dylgjur um lögregluna, að ég er að vitna beint í talskonu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem segir að allt útlit sé fyrir að brotið hafi verið á mannréttindum mannanna. Ég er ekkert að koma með einhverjar dylgjur um að þetta hafi ekki verið rétt og vel að verki staðið.

Mig langar jafnframt að vitna í hana og óska eftir því að hæstv. innanríkisráðherra athugi með það að nánast undantekningarlaust sé sá háttur hafður á að fólk sé handtekið vegna þess að það komi á fölsuðum skilríkjum. Þetta er eitthvað sem Pia Prytz Phiri segir að sé skýrt, að ekki eigi að refsa flóttamönnum fyrir ólöglega innkomu til landsins. Þessi vinnubrögð eru ekki í samræmi við alþjóðalög og þau eru ekki í samræmi við 31. gr. flóttamannasamningsins.

Mig langar því bara að ítreka: Ég veit að vilji er til þess að lagfæra þessi mál en við getum gert betur og sér í lagi — ég kallaði eftir upplýsingum um hvernig það var hér á síðasta kjörtímabili með þessar handtökur. Við vitum að fólk kemst oft ekkert út úr landinu sínu nema fá fölsuð skilríki, það þekkjum við öll sem höfum unnið með þennan málaflokk. Mig langar því bara að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort ekki standi til í það minnsta að gera sitt besta til að tryggja að þessi hefð haldist ekki við.