143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

sveitarstjórnarlög.

152. mál
[14:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa verið annars staðar á lóðinni. Ég átti ekki von á að framsöguræður yrðu svona fyrirmyndarstuttar í hverju málinu á fætur öðru og engar umræður. Mig langaði að biðja hæstv. innanríkisráðherra að fara betur yfir það með okkur, í fyrsta lagi af hvaða tilefni sérstaklega frumvarpið er flutt. Er það vegna óska frá einstökum sveitarfélögum? Í öðru lagi: er eftirlitsnefndin sátt við það að gengið sé svona frá málinu og þá jafnvel út þennan tíu ára aðlögunartíma sveitarfélaganna?

Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að boða einhverja andstöðu við þetta eða gefa mér fyrir fram að ekki geti verið fullkomlega réttlætanlegt að gera þessa breytingu en engu að síður er þarna verið að breyta aðeins grundvellinum undir mjög mikilvægum reglum sem sæmileg samstaða tókst um að lokum að setja, til að koma á meiri aga í sambandi við fjármál sveitarfélaganna og setja þeim markmið um að bæta fjárhagsstöðu sín og ná inn fyrir tiltekin mörk. Það hljómar ekki beint í anda þeirrar hugsunar að breyta ákvæðunum að því leyti að það sé valkvætt fyrir sveitarfélög hvort þau taka með inn í sína samstæðu eða útreikninga í þessu tilviki áhrifin af dótturfélögum, þó að í orku- eða veitustarfsemi sé, eða ekki.

Það þýðir væntanlega á mannamáli að sveitarfélögin geta þá valið að taka það sem hagstæðara er hvoru sinni, hafa þetta ýmist með eða ekki með. Það finnst mér ekki alveg vera í anda hugmyndafræðinnar um að menn þurfi á einhverjum sameiginlegum grundvelli að nota aðlögunartímann til að ná helst bókhaldi sínu, efnahag sínum, inn fyrir ásættanleg mörk. Mér finnst eiginlega ómögulegt annað en að við fáum upplýst: Var þetta gert vegna stöðunnar hjá einhverjum tilteknum sveitarfélögum og komu óskir um það frá þeim? Er eftirlitsnefnd sveitarfélaga búin að fara yfir það og blessa það? Er ráðuneytið sjálft og fjármálaráðuneytið, sem auðvitað var samstarfsaðili sveitarstjórnarráðuneytisins um þessar reglur á sínum tíma, eru menn þar á bæ líka sáttir við að fara þessa leið?

Eins spyr ég hvort hugsunin sé sú að þetta standi svona óbreytt út tíu ára tímabilið eða hvort hugsanlega mætti skoða að hafa þessa aðlögun eitthvað skemmri innan þess tímabils, leyfa ef til vill sveitarfélögum sem væru í vandræðum af þessum sökum að fá þrjú eða fimm ár og mega nota valkvæðu regluna á þeim tíma en eftir einhvern tiltekinn tíma skyldu allir reyna að gera þetta upp á sama grunni. Þarna er aðeins gefið eftir, það er augljóst mál að þarna er aðeins gefið eftir gagnvart því að menn verði að sýna stöðuna eins og hún í reynd er vegna allrar samstæðunnar sem viðkomandi sveitarfélag er ábyrgt fyrir.