143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér leikur forvitni á að vita hjá hæstv. ráðherra hvað ræður því að hér er verið að setja þetta ákvæði sérstaklega inn, sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. ráðherra sagði, ef ég heyrði rétt, að þetta ætti ekki að hafa fordæmisgildi gagnvart heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Það kemur mér á óvart að hér skuli vera farið inn í úthlutun með hefðbundnum hætti, þó þannig að það má deila um hvort þetta uppfylli lögin líka vegna ákvæðis í 9. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, með leyfi forseta:

„Verði veiðar takmarkaðar samkvæmt 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á, en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.“

Ég geri mér grein fyrir því að þetta var í heildarafla hjá viðkomandi skipum fyrir margt löngu og þá er spurningin: Er þetta í samræmi við þetta lagaákvæði?

Í öðru lagi vitum við að mjög margir af þeim sem höfðu þessar heimildir, sérstaklega árin áður en þetta var gefið frjálst, nýttu þær ekki. Þá spyr maður: Er ekki markmiðið að veiða og nýta rækjuna?

Það kemur líka fram í greinargerðinni að það sé 50:50, um 50% þeirra sem nýta hana í dag hafi ekki haft hlutdeild áður. Af hverju er þá 70:30?

Það var vitnað í sáttanefndina í þessari ræðu og hefur verið gert í almennri umræðu, m.a. um makrílinn, og þar er sérstakt ákvæði um að þrengja beri heimild til framsals aflaheimilda en leyft verði að skipta á jöfnu á aflaheimildum og færa aflaheimildir milli skipa innan sömu útgerðar. Þar er tekið sérstaklega fram að meiri hluti þess hóps telji að verði aflaheimildir framseldar eigi það að vera á opinberum markaði en ekki þannig að það sé hlutdeild sett á skip og skipin eða útgerðin sjálf skammti það svo til annarra fyrirtækja, í þessu tilfelli rækjufyrirtækja.

Það eru fleiri atriði sem varða það að vísa í sáttanefndina og ég ætla að koma að þeim í seinna andsvari mínu.